Lestur og veður

Upplesturinn í morgun gekk afskaplega vel. Það var frábært að koma í gamla skólann minn og fá aðrar eins viðtökur. Það brutust út fagnaðarlæti þegar ég las Ódeilu (sjá neðar), greinilegt að þessum krökkum er ekki fisjað saman. Ekki var það heldur amalegt að sitja inni á kennarastofu, sulla í sig tei og ræða við alla kennarana, svona á öðrum nótum en áður.

Annars er þetta helst að frétta: Ég er alfarið á móti veðri þessa dagana. Tæpar tvær vikur af sama helvítis rokandskotansveðrinu! Og ekki bætir úr skák að meðalhiti síðustu tveggja daga hefur hlaupið á bilinu °6- til °8- celsíus.

Ódeila

Hafðu ekki áhyggjur hér er hagvöxtur hér er góðæri
hér er velferð við seljum landið fyrir hagvöxt kaupum
út góðærið og seljum velferðarkerfið fyrir velferð þú
þarft engar áhyggjur að hafa haltu áfram vertu þú sjálfur
eða sjálf, ef þú ert kona, við styðjum konur, við erum
jafnréttissinnar farðu í vinnuna, fáðu þér sjónvarp farðu
í frí til útlanda kauptu þér sófann sem þig langar svo
mikið í kauptu þér nýjan bíl við byggjum hraðbraut undir
hann hafðu ekki áhyggjur við fjármögnum hallann með
blóðpeningum.

Rask og fyllerí

Sitjandi í tíma undir handleiðslu mikils málfræðitöffara, ekki minnugur þess hvar ég heyrði ungmálfræðinganna fyrst getið, minnugur þess að hafa dottið í það með menntskælingum á loftinu þar sem Rask uppgötvaði germönsku hljóðfærsluna. O tempora, o mores?

Hvaða þjóð fann upp ó-upphrópunina? Svarið er á blaðsíðu 269 í Grænjaxlahandbókinni.