Út er komin bók

Endurómun upphafsins
„Laust fyrir miðnætti varð piltinum ljóst hvað það var sem hann heyrði, óð tunglsins. Hann þusti út til að faðma að sér ljósdropana sem seytluðu niður úr himnunum en greip í tómt og allt missti marks.
Það var á efsta degi samkvæmt Greenwich Mean Time en hann var á Íslandi, sem enn var landfræðilegum klukkutíma á eftir. Tunglið stóð aftur á móti á kosmískum tíma svo bitförin voru þá þegar orðin greinanleg, en þau sá pilturinn ekki.
Fyrst féll myrkrið á Greenwich á miðnætti, svo dreifði það úr sér til austurs. Allajafna hefði Ísland verið næst en þann dag var heimurinn öfugsnúinn. Mitt á milli alþjóðlegu dagalínunnar og Greenwich var pilturinn þannig svo lánsamur að deyja ekki fyrr en deginum eftir Ragnarök.
Og meðan heimurinn snerist upp í andhverfu sína stóð hann í tunglsljósi og glímdi við ritstíflu sem bjargað gæti heiminum – með einungis örfáar mínútur til stefnu …“

Bókin Endurómun upphafsins kom út á dögunum og verður fáanleg í helstu bókaverslunum höfuðborgarsvæðisins eftir helgi fyrir litlar 1990 krónur. Bókin er einnig væntanleg í Bókval á Akureyri, en þartil má nálgast hana á sérlegu tilboðsverði hjá höfundi. Ókeypis heimsending í boði fyrir kaupendur utan höfuðborgarsvæðisins, en nánari upplýsingar um fyrirkomulag fást hjá höfundi: arngrimurv@simnet.is.