Jól

Það er Landsvirkjun-MasterCard™ sem færir yður jólin.

Njótið terawattlogans úr yðrum rafurkertum® og borðið ©Jólasteik.

Og lát þér eigi drjólasveinana taka yður!!!

Til lesenda nær og fjær
svo og ættingja, vina og annarra förunauta og andans landeyðna
með jólakveðju,
Arngrímur Vídalín Stefánsson.

Dvalarhorf lífs míns

Ég fann frábært ráð við andvökum: Maður telur upp prímtölur í huganum uns maður sofnar. Þetta er að vísu ekki fullreynt, mér fannst hugmyndin svo góð að ég hætti að telja svo ég gæti bloggað um það. En ég get svo svarið það, að mig er þegar tekið að syfja!

Vona annars að þetta fárviðri sé stormurinn á undan logninu. Er ekki komið gott af þessum fárviðrum?

Ljóð dagsins annars, langt síðan síðast. Ljóðið er eftir Steinar Braga, úr bókinni Augnkúluvökvi:

skiljist
brenni dagar líði glóð
og nætur um dúnfylltar sængur
líði ský falli regn rísi sól
og setjist komi morgunn héluð birta
líði vindur sveiflist tré komi sígarettur
dagblöð og bollar af kaffi lesist bækur
opnist augu og lokist klekist púpur
rísi loftbólur og springi spretti blóm
falli lauf blikki sjónvörp opni búðir
klingi kassar glennist fætur
svitni lófar streymi blóð grenji börn
opnist kistur og lokist rísi haf og hnígi
hjarta og þenjist fólk og deyi

Disney og söguleg málvísindi

Var ég einhverju sinni búinn að kvarta undan kjánaskap handritshöfunda Disneymyndarinnar Atlantis? Í henni kemur fyrir fornmálafræðingurinn Milo og félagar hans sem komast við illan rammleik til sokknu borgarinnar Atlantis, af hvaða tilefni man ég ekki, a.m.k. ekki til að rannsaka málfræði. Eigi fyrr hafa þeir gereyðilagt kafbát sinn en þeim er haldið í gíslingu af sprundi með spjót, kjaftar á henni hver tuska á óskiljanlegu máli til að bæta gráu ofan á svart.

Nema skyndilega rennur upp fyrir Milo að þetta mál sé hvorki meira né minna en frumtunga indóevópskra mála. Og með geipimikla málfræðikunnáttu sína að vopni nær hann að tjá sig við sprundið á hennar eigin ylhýra máli sem ekkert hefur þróast á yfir tvöþúsund árum. En hvað um það.

Allt bliknar þetta í samanburði við þá vísindasögulegu sprengju sem Milo varpar fram í kjölfarið og fengið gæti málfræðinga heimsins til að fuðra upp innvortis, ælandi blóði með miklum gráti og gnístran tanna. Hann tekur nefnilega til við að útskýra fyrir samferðafólki sínu hvernig á því standi að hann geti tjáð sig við sprundið, en ályktar sem svo að hún geti þá skilið öll síðari indóevrópsk mál sömuleiðis! Og mælir þá hin fleygu orð: Parle vous français? Svarar sprungið: Oui, monsieur!

Fyrir utan meistaralegan skilning þeirra Disneymanna á eðli sögulegra málvísinda, og bara línulegrar atburðarásar yfirleitt (sbr. af hverju íslenskufræðingar væru betur til þess fallnir að skilja landnámsmenn en öfugt (þótt þeir gætu það alls ekki!), sbr. sömu forsendu önnur skilyrði: Hvers vegna fólk sem var uppi á tímum Platons hefði ekki verið samræðuhæft um Kastljós gærkvöldsins), þá má gera ráð fyrir að ævintýrið skipti hér máli ofar öðru. En einu gleymdu þeir ef það er tilfellið: Ef sprundið skilur frönsku, og getur aðgreint hana frá sínu eigin máli, hvernig stendur þá á því að hún skilur ekki ensku?

Próflestur

Síðasta prófið er á morgun. Það er ágætt, þetta er farið að hafa sín áhrif á mig, meira að segja vinnufélagi minn hafði orð á því við mig að ég hafi ekki verið eins og ég á að mér að vera. Ég er í það minnsta fremur djúpt sokkinn inn í sjálfan mig orðið, á erfitt með að tjá mig um annað en námsefnið.

Til að sporna við þessu hef ég síðustu daga reynt að endurheimta snefil af rökhugsun og lesið fréttabréf James Randi mér til ánægju og yndisauka. Það hefur raunar ekki hjálpað neitt sérstaklega, en það er góðra gjalda vert engu að síður.

En nú eru það Fromkin, Rodman, Hyams eða dauðinn. Ég held ég öskri.

Fíaskó

Öll þessi Moggablogg eru að springa utanaf bloggfærslum um Blaðið, Sigurjón M. Egilsson og einhvern umbrotsmann líkt og þar eigi sér stað bein útsending á umfangsmesta stjórnmálaskandal Íslandssögunnar, menn talandi um sinn Hádegismóa eins og hvert annað Watergate, þegar í raun hljóti öllum að vera jafn innilega sama og mér þótt einhverjum körlum detti í hug að skipta um vinnustað.

Moggabloggin eru eiginlega orðin að framlengingu á Fréttablaðinu, DV og Blaðinu: Fjölmiðlar fjölmiðlafólks fyrir fjölmiðlafólk. Kannski ekki skrítið þar sem allir þeir sömu og vinna á þessum blöðum blogga hjá Mogganum, hversu vitrænt sem það annars hljómar. Og hvað nákvæmlega er svona merkilegt að gerast á þessum blöðum? Ekkert, fyrir utan að þau verða ólæsilegri með hverjum deginum, ef þau voru læsileg til að byrja með. Og Bloggheimar fullir af einhverju fjölmiðladrama: Vísað á dyr, fékk bréf frá einhverjum náunga sem enginn hefur heyrt um og öllum er sama um, ræddi við þessa menn sem enginn hefur heyrt um (en það er töff að namedroppa).

Á sama tíma heyrist sama mjálmið alltaf frá fríblaðakommúnunni: Baugur og Mogginn, Mogginn sökkar, blabla. En svona fyrst þetta er orðið álíka vandræðalegt eins og í kvikmyndinni The Paper finnst mér alveg athugandi að prófa að skjóta á þessa blaðamenn og ritstjóra eins og gert var í henni. Þá fengju íslenskir fjölmiðlar kannski smá sans fyrir spennu. Þótt frásagnir fjölmiðlamanna af sjálfum sér myndu ef til vill ekkert minnka fyrir vikið.

Endemis kjaftæði

Er þetta ekki einhvers konar grín? Varla hefur íþróttaaðstöðu MS hrakað svo mjög síðan ég útskrifaðist að hún teljist nú hættuleg útfrá heilsuverndarsjónarmiði! Aðstaða MS er mjög í samræmi við sambærilegar aðstöður í þeim öðrum skólum sem ég hef numið við, þ.m.t. Laugardalshöll þar sem Laugalækjarskóli hefur sína íþróttaaðstöðu. Og sem fyrrum nemandi MR verð ég að kalla þetta hlálegt, þeim hefur varla dottið í hug að stinga nefi sínu inn um þær dyrnar? Þeir mættu alveg prófa það, tvímælalaust ógeðslegustu sturtuklefar sem um getur. Ef íþróttahús MS er á einhvern hátt óviðunandi hlýtur íþróttahús MR að vera til háborinnar skammar, líkt og mér virðist niðurstaða Umhverfissviðs í fljótu bragði vera.

Komment

Ég fordæmi Blogger fyrir að leyfa mér ekki lengur að kommenta á síður með ruslvörn. Ég kommenta þá bara hér í staðinn.

Jú, Grófarhús í Tryggvagötu er vissulega aðalbygging Borgarbókasafns, við hlið Listasafns Reykjavíkur. Hýsir einnig Ljósmyndasafn Reykjavíkur, þar sem ég vænti þess að Nýhilsýningin verði, auk Borgarskjalasafns. Þar dett ég í það með bókavörðum á föstudaginn, svo ég geri ráð fyrir að geta slagað gegnum sýninguna í leiðinni.

Hvað sem flissi svo annars líður fannst mér Blockrocking Beats-pælingin vel verðskulda fliss. Ég flissaði sjálfur. Fliss er gott, eins og komið hefur fram.

Tunglið

MánaskinVesturbærinn er sérlega íslenskur staður sé miðað við hina hluta Reykjavíkur. Það er mjög sérstaka stemningu að finna hérna í engu skjóli frá norðanáttinni, í námunda við höfnina, innanum veðurbarin hús meðfram sjávarsíðunni og litlar götur sem norðurljósin lýsa upp í hvívetna. Það er mjög gott að ganga hérna um, litast um, skoða.

Á slíkri göngu álpaðist ég niður að bryggju hjá slippnum. Tunglið var svo lágt á lofti að hefði það verið lægra hefði Esjan yfirskyggt það. Og það var stórt, hjálpi mér. Hafið maraði fullkomnlega stillt í höfninni fyrir utan einstaka gáru frá bryggjustólpunum, og tunglið endurspeglaðist tvöfalt að stærð í leginum, meðan bátarnir sváfu undir stjörnunum rólega vaggandi. Norðurljós skinu undan skýjum við og við, freri á jörð.

Ég greip andann á lofti, svo mögnuð var tilfinningin. Og meðan ég hugsaði um framliðna sjómenn skaut upp í huga mér ljóði, sem mjög svo kaldhæðnislega er úr tölvuleik, ó vei hinni 21. öld. Ljóðið ber engan titil, en það mun vera samið af Tim Schafer. Leikurinn heitir Grim Fandango.

It shone, pale as bone
As I stood there alone
And I thought to myself how the moon,
That night, cast its light
On my heart’s true delight,
And the reef where her body was strewn.