Leiðrétting

Einhverjir munu hafa skilið síðustu færslu sem svo að ég væri að hnýta í Einar Má (!), svo greinilega er það ofsögum sagt að ég geti tjáð mig á skiljanlegri íslensku. Síðasta færsla segir, í sem fæstum orðum, að það sé kjaftæði að list eða fræði geti versnað af þau komast í tísku. Dæmi um fullyrðingu: Ég las Draumalandið áður en það varð geðveikt kúl og ég var bara vá mar! Núna er maður bara, þúst, kommon! Hvadda lesidda mar?!
Nietzsche er ofnotaður og rangtúlkaður sem nasismi og andfeminismi o.s.frv. Ergó: Menn skulu ekki vitna í Nietzsche? Ef eitthvað er held ég að þveröfugrar nálgunar sé þörf, m.ö.o. sé ég engar forsendur fyrir þessari afleiðslu. Ef til er Nietzsche-klisja þá er það rangtúlkun á hugmyndum hans. Rangtúlkanir þarfnast leiðréttingar, ekki afneitunar.
Auk þess finnst mér hálfgerð klisja að sjá klisjur í hverju horni. Það er nokkuð sem ég tengi við tískuvitund níundubekkinga og Huga.is.

Nietzsche-klisjan

Jæa, hér hefur ekkert verið sagt af viti í alltof langan tíma. Bæti ég úr því hérmeð ellegar verð að gjalti sjálfum mér til ævarandi sproksetningar í sérhverjum afkima mannfélagsins. Sjáum hvort gerist.

Friedrich W. NietzscheÞað er fáránlega klisjukennt, þreytt og fíflalegt að vitna í Nietzsche, gæti maður haldið, kannski ekki síst eftir að Englar alheimsins varð skyldulesning í grunnskólum og hvaða dópisti sem er af ákveðinni kynslóð og eftir varð nógu menntaður til að geta vitnað í Zaraþústru og lýst því yfir að Guð sé dauður samkvæmt aldargamalli speki.

Samt er Nietzsche alltaf jafn töff. Hvernig getur þá verið klisjukennt og þreytt að vitna í hann? Af því það er það einfaldlega ekki. Hin einasta klisja sem til er, það er trúin á klisjur, óbilandi trú á ófrumleik og ævarandi löngun meðalmannsins til að vera nákvæmlega eitthvað annað en hann er: Meðalmaður. Vegna þess að allir gera eitthvað, þá er það ömurlegt. Blindandi hentu pílu af annarri hæð í Kringlunni og þú hittir einhvern sem er þessarar skoðunar.

Einar Már GuðmundssonSömu manneskju gæti þótt eðlilegt að breyta um stíl þegar allir eru orðnir eins og hún. Sama manneskja gæti sagt: Rammstein voru geðveikir þartil allir fóru að hlusta á þá. Hún myndi bara orða það sér í vil, í lymskulegri tilraun til að leyna því hversu vitlaust þetta er. Tónlist verður ekki léleg þótt allir hlusti á hana. Jörðin verður ekki flöt af því allir halda að hún sé hnöttur.

Að sama skapi er Nietzsche ekkert síður gjaldgengur þótt margir geti vitnað í hann. Nietzsche-klisjan er ekki sú að annarhver maður sé öskrandi á torgum úti: GUÐ ER DAUÐUR! VIÐ DRÁPUM HANN!, heldur sú að fólk hefur yfirhöfuð enga andskotans hugmynd um hvað þetta merkir. Enda hafa færri Íslendingar lesið Zaraþústru en Engla alheimsins. Og hvernig gengisfellir það Nietzsche? Af hverju gengisfellir það ekki Einar Má? Af því í grunninn er þetta vitleysa? Annað eins gæti nú verið.