Dvalarhorf lífs míns

Ég fann frábært ráð við andvökum: Maður telur upp prímtölur í huganum uns maður sofnar. Þetta er að vísu ekki fullreynt, mér fannst hugmyndin svo góð að ég hætti að telja svo ég gæti bloggað um það. En ég get svo svarið það, að mig er þegar tekið að syfja!

Vona annars að þetta fárviðri sé stormurinn á undan logninu. Er ekki komið gott af þessum fárviðrum?

Ljóð dagsins annars, langt síðan síðast. Ljóðið er eftir Steinar Braga, úr bókinni Augnkúluvökvi:

skiljist
brenni dagar líði glóð
og nætur um dúnfylltar sængur
líði ský falli regn rísi sól
og setjist komi morgunn héluð birta
líði vindur sveiflist tré komi sígarettur
dagblöð og bollar af kaffi lesist bækur
opnist augu og lokist klekist púpur
rísi loftbólur og springi spretti blóm
falli lauf blikki sjónvörp opni búðir
klingi kassar glennist fætur
svitni lófar streymi blóð grenji börn
opnist kistur og lokist rísi haf og hnígi
hjarta og þenjist fólk og deyi