Dagur í lífi prinsípmanns

Ég svaf líklega ekki meira en þrjú kortér í fyrrinótt áður en ég mætti til vinnu á safnið klukkan tíu. Um eftirmiðdegið kom í ljós að ég átti að mæta klukkan tólf, en mér fannst næg réttlæting í að hafa mætt tveimur tímum of snemma og hafa fengið far fremur en hitt. Þá bauðst mér að fara tveimur tímum fyrr í staðinn, en ég ákvað að fara heldur heim við lokun svo ég fengi far (sama prinsíp).

Klukkan sjö kemur Dóra, eiginkona Þórhalls vinnufélaga og mikils meistara, og býður mér far gegn því að ég fljóti fyrst með heim til bróður hennar, svo hún geti gefið honum gjöf. Það fannst mér ágætur díll. Þegar þangað er komið uppljóstrast samsæri bróðurins um að bjóða þeim hjónum í mat. Ég spurður hvort mér sé sama þótt ég fái mér örlítið að borða, og hvort mér var. Borðað var og drukkinn bjór, sögur flutu yfir matarborðið og mikið hlegið.

Klukkan níu var ákveðið að slútta samsætinu svo iðnaðarmaðurinn, sem einnig hafði verið ginntur í mat, gæti innt af hendi því verkefni sem hann hafði komið til að inna af hendi. Í millitíðinni hafði ég fengið tvær heilar hringingar frá Silju Hlín, þar sem þess var krafist að ég mætti á Kofa Tómasar frænda til að skemmta henni og fleira fólki. Þangað keyrðu hjónin mig og kvöddumst við innilega áður en ég hljóp inn á öldurhúsið. Þar náði ég rétt tæplega að slokra í mig einum bjór áður en allir (nema ég) ákváðu að fara, og snapaði ég mér far hið þriðja sinn.

Er heim var komið tóku við um fimm kortéra langar umræður um óperur við föður minn áður en ég sofnaði svefni hinna réttlátu skömmu eftir miðnætti, og varði hann þartil nú klukkan eitt eftir hádegi á frídegi.

Þrátt fyrir extrím aðstæður á vinnustað (allir að skila öllum bókunum sem þeir höfðu tekið í desember, það bókstaflega flæddi yfir) og annarlegt ástand á mér ósofnum var allur vinnudagurinn afar ánægjulegur, þó ekki nema væri fyrir að mér mun hafa tekist að gera tólf ára dreng húkkt sem sagt er á Íslendingasögunum, og bjargaði honum þarmeð frá ævilangri andlegri örkumlan á elleftu stundu. Unglingsárin sem vitað er myrkar miðaldir fyrir áhuga manna á íslenskum fornritum, og fæstir koma heilir þaðan aftur.