Á milli daga

Ég lýsi yfir að dagurinn í dag er sá dagur sem fellur á milli daga og er því ekki dagur í neinum skilningi. Þess vegna hlusta ég á In Between Days með Cure. Fann snert af eilífðinni á Brennslunni sem nú er yfirborðslaus á yfirborðinu, en það var kannski stundarbrjálæði. Enda eilífðin ekki til í eiginlegum skilningi, aðeins gæsin sem grípa þarf á stundinni.

Á leiðinni heim var svo enginn á ferli, aðeins kuldi og þögn eins og vera ber í janúar.

Ímynda mér að í framtíðinni verði lagðar kaldavatnsleiðslur til að snöggfrysta heiminn þegar heimurinn er hættur að snúast og vera kaldur, svona svo fólk þurfi ekki að hætta að skauta og lifa áhyggjulausu lífi undir stjörnubjörtum himni með elskunni og þykja lífið og heimurinn fallegur saman. Hljóðfráar þotur með slæður simjúlera norðurljósin, breytt heimsmynd á álöld.

Svo sá ég kött sem var vaxinn eins og sauðnaut. Jón Örn er hinsvegar meira svona eins og prímati, jafnvel mennskur, á stundum. Sér í lagi þegar hann borgar fyrir mig kaffibollann sem ég starði dauðann ofaní í stundarbrjálæði á Brennslunni.

Lífið er leikur

Stóð fyrir stundu við suðurgluggann á íbúðinni og reykti. Í efsta glugga húsagarðsins á móti sá ég spegilmynd lítillar telpu hoppa á rúmi á fjórðu hæð hússins við hliðina. Hún hoppaði án afláts, og án sýnilegrar skemmtunar.

Það var undarlega róandi á að horfa. Og kannski er lífið einmitt spegilmynd af slíkum leik sem ætíð virðist vera beint fyrir framan þig en er í raun í næsta húsi. Þess vegna tekurðu ekki þátt.

Kannski ég banki upp á hjá grönnunum, segist vera kominn í leit að lífi. En ekki strax, fyrst leita ég dauðans á botni kaffibolla. Svo tek ég spegilmynd lífsins með ró uns ég nenni að hafa mig í að banka upp á og hoppa á rúmi fram í rauðan dauðann.

Eða þartil þau reka mig út.

Djamm segirðu?

Í öllu falli var gærkvöldið áhugaverð mannlífsstúdía, þótt ekki yrði meira sagt. Skúli átti afmæli og óskist honum enn og aftur til hamingju með það. Ég fór raunar heim snemma vegna fullstífra lifraræfinga en endaði samt inni á skemmtistað í stutta stund, hafði í það allra minnsta vit á að drekka ekki neitt meðan ég var þar.

En nú held ég að tími sé kominn á smá bindindi. Svo þarf ég að læra upp á nýtt hvernig á að blogga. Jafnvel fara á námskeið í því hvernig forðast beri að vera steiktur í samræðum við fólk.