Mætti ég biðja um tuttugu ár í viðbót?

Ég fór í þrjá skóla í dag í þrenns konar erindagjörðum, þann sem ég nem við sem stendur og tvo sem ég nam við áður. Í þeim þriðja átti ég sérstakt erindi við fyrrum kennara minn sem síðar kenndi mér einnig að aka. Allt þrennt var með eindæmum ánægjulegt, gott ef sólin skein ekki í smástund.

Á leiðinni heim lenti ég svo í temmilega hörðum árekstri, eins og fyrir kaldhæðnislega bölvun. Vegna aldurs míns var málið fyrirfram tapað, en ég áttaði mig ekki á því fyrr en lögreglan mætti á svæðið að ég þyrfti að vera minnst fimmtugur til að vera tekinn alvarlega. Í ofanálag hreytti hinn aðilinn í mig ónotum í hvívetna, ég skyldi ekki reyna neitt kjaftæði bara vegna þess hún væri kona, eins og ég væri einhvers konar framsóknarmaður eða eitthvað þaðanaf verra.

Það er því óhætt að segja að dagurinn hafi tekið dýfu niðrávið einhversstaðar milli Norðurmýrar og Þingholta.