Af rappi

Ég verð að játa að ég varð fyrir vonbrigðum þegar ég uppgötvaði að fyrsta breiðskífa Eminem er ekki heima hjá mér á Öldugötunni heldur líklegast í kassa niðri í geymslu hjá mömmu. Það er rétt, ég sé enga skömm í að játa að ég fíla fyrstu plötu Eminem, þó ekki nema sé nostalgíunnar vegna.

Sumir menn eru hinsvegar óforbetranlegir í sinni Koяrnnostalgíu eins og ég hef oft bent þeim á. Þegar ég var unglingur hafði ég raunar talsverðar áhyggjur af markaðsvæðingu hins dysfúnksjónal [sic] listamanns sem var misnotaður kynferðislega og vann á líkhúsi (sér til ánægju). Það þótti samt töff.

Nú er ég ekki að segja að frásagnir Eminem af föður sem myrti barnsmóður sína til að fá að hitta dóttur sína væru mikið skárri, en á einhvern hátt var það nýstárlegt á Íslandi á þeim tíma – eitthvað sem maður hafði aldrei kynnst áður. Eftir Slim Shady LP hef ég þó ekkert getað fílað með Eminem, utan einskífunnar Stan þar sem hann fékk lánað stef af plötunni No Angel með hinni ofurkrúttlegu Dido, sem hún gaf út þvert ofaní sérhvert yeah right heimsins. Eins klisjukennt og það kann að hljóma – eins klisjukenndar og klisjukenndir eru.

Það var nefnilega gott lag, mun betra en orgínallinn, ólíkt öðrum slíkum samstarfsverkefnum rappara og krúttpoppara. Enda var umrætt stef aðeins inngangur að orgínalnum sem sökkaði að flestu öðru leyti. Dæmi um hið gagnstæða væri þá Say What You Want með Method Man og Texas, sem ég er að hugsa um að sækja mér á netið núna uppá nostalgíu. Orgínallinn var talsvert betri, en honum fylgir engin nostalgía.

Annað lag sem hefur fylgt mér lengi er samstarfsverkefni Busta Rhymes og annars náunga sem ég kann ekki að nefna. Minnir að lagið heiti Real Hot. Ef einhver getur reddað mér því yrði það vel þegið, því ég finn það hvergi á netinu. Armt er það, netið.