Hrefnur

Áðan ók ég á nýja bílnum mínum út í búð, þar sem ég endaði á að kaupa mér hval á grillið. Á leiðinni heim tók ég eftir að búðin stendur við Hvaleyrarbraut, sem reyndist liggja í boga upp á nærliggjandi holtið og niður aftur þar sem hún tengist Hringbrautinni beint.

Hvaleyrin sjálf var merkileg útlits en ekki kann ég söguna af þessari nafngift; hvort þar hafi eitt sinn strandað hvalur eða þeim verið slengt á land þarna úr skipunum.

Þegar heim kom bar ég drasl inn úr bílnum og nagladekkjunum henti ég niður í geymslu. Þegar ég ætlaði að verðlauna mig með hvalnum mundi ég að sjálfsögðu eftir að gaskúturinn er uppi á Öldugötu og sömuleiðis hnífapörin.

Fyrst ég er á annað borð að skrifa um hvali má bæta því við að þegar ég var lítill hélt ég því oft fram við Hrefnu frænku mína að með lambhúshettu á höfðinu liti hún út eins og hvalur. Þá vissi ég ekki að kjötið góða kæmi af samnefndri skepnu.

Hafnarfjörður

Ég dey. En hérna er ég.
Ég kveð Öldugötuna með þjósti, í tuttugu kílómetra fjarlægð frá næsta (almennilega) öldurhúsi sem ekki er troðfullt af víkingabastörðum, þótt slíkt lið fyrirfinnist líka í Reykjavík.

Ég hef pönkast mjög undan þeirri ráðstöfun að flytja hingað og gert því skóna að í stað Esjunnar fengi ég Keili útum stofugluggann. Raunar er það sama Esjan, Keilir er hinumegin. Annars finnst mér Hafnarfjörður hinn fallegasti bær (svona sá hluti sem ég bý í). Og í raun væri Hafnarfjörður frábær valkostur við Reykjavík ef hann væri ekki alveg ofaní henni. Væri hann, segjum, í Mosfellssveit, eða bara einhversstaðar úti á landi, þá væri Hafnarfjörður raunverulegur kostur. En því miður, þá er Reykvíkingi ekki sæmandi að flytja svo skammt frá heimaslóðum sínum. Allt eða ekkert.

Jamm.

Fallegur dagur

Gott er á góðum degi að taka rúnt niður á bókasafn og krækja sér í einhver rit til að glugga í með tvöföldum espresso á einhverju útikaffihúsinu (enda dugir reykingamönnum skammt að sitja inni). Á svona degi er líka viðbúið að mörgum kunnuglegum andlitum bregði fyrir í bænum og sú óviðfelldna hundraðogeinntilfinning lætur á sér kræla að miðbærinn sé í raun framlenging á bakgarðinum heima (fyrir sex árum sá ég Geir Ólafs rölta um bæinn að morgni til á slopp og inniskóm, leiki það enginn eftir).

Við tjörnina létu mávarnir loftárásirnar dynja á höndunum sem fóðruðu þá og þegar ég gekk Bárugötuna heim á leið hallaði sér útigangsmannslegur náungi með trosnaða bók yfir garðvegg og leiðbeindi ábúanda hvernig ætti að vitna í hann sjálfan í heimildaskrá, meðan hinn síðarnefndi rakaði garðinn sinn.

Í lok mánaðar er útlit fyrir að Vesturbæjardraumurinn sé úti um sinn en við taki annarskonar tímabil þarsem ég verð þó líklega með aðstöðu í bænum undir hverskyns hringlumhrangl. Þá er viðbúið að ég muni eyða langtum meiri tíma en eðlilegt gæti talist í bænum til að kreista hið mesta úr blóðmjólkuðum steininum, enda þótt því fari fjarri að miðbærinn geti alltaf talist eitthvað sérlega kræsilegur. Það er fyrst og fremst á dögum sem þessum, og haustin í Vesturbænum geta verið ansi köld þegar blæs eftir endilangri Hringbrautinni.

En við sjáum hvað setur.

Kalda stríðið II

Fyrst það virðist liggja í loftinu er réttast að árétta Ginsberg:

America you don’t really want to go to war.
America it’s them bad Russians.
Them Russians them Russians and them Chinamen. And them Russians.
The Russia wants to eat us alive. The Russia’s power mad. She wants to take
our cars from out our garages.
Her wants to grab Chicago. Her needs a Red Reader’s Digest. Her wants our
auto plants in Siberia. Him big bureaucracy running our fillingstations.
That no good. Ugh. Him makes Indians learn read. Him need big black niggers.
Hah. Her make us all work sixteen hours a day. Help.
America this is quite serious.
America this is the impression I get from looking in the television set.

Allt ljóðið má lesa hér. Hér má svo heyra mixteip af Ginsberg að lesa það við lagið Closing Time eftir Tom Waits.