Kokteilboðið við enda Sunset Blvd.

Á hverjum degi ek ég Sunset Boulevard Íslands, Reykjavíkurveginn, tvisvar. Það er skárra á morgnana en um eftirmiðdegið, þegar bílalestin getur náð frá Garðabænum uppá Kringlumýrarbraut við brúna. Á brúnni í dag hékk borði sem letrað var á:

Hverra götur?
Okkar götur!

Hvað svo sem það merkir nákvæmlega hlýtur það að vera satt.

Þegar svo bílalestin loks leystist upp á Sunset Boulevard var mig farið að klæja í ódýra DVD-mynd – Þessar 990,- króna útstillingar eru guðsgjöf – svo ég kom við í Firðinum, eina staðnum í Hafnarfirði þar sem mektarmenn og auðnuleysingjar geta komið saman og fagnað gnægtum hins íslenska markaðssamfélags sem jafningjar. Þar varð mér starsýnt inn í Herra Reykjavík á Einar Ágúst með gítar og fólk með freyðivínsglös að gaula „Tell Me Twice“. Eðlilegur dagur í Firðinum býst ég við. Ég gekk þaðan út með ódýrustu jakkaföt sem sögur fara af.

Mér var ekki boðið freyðivín.

Festi kaup á bók í dag

„Waits caught Rock’s show in a disreputable little Sunset Strip establishment called Filthy McNasty’s. The place was nearly empty – Rock and his band, decked out in shocking-pink jumpers, were playing to the bar staff, Waits, and a handful of wayward businessmen. As Waits describes it, Rock was in the middle of a „bitter and distracted“ version of „The Tennessee Waltz“ when he suddenly stopped singing. Then he grabbed his drink, hurled it against the wall, and started screaming at the suits, calling them „a bunch of damned bloodsuckers.“ Sweat pouring from his brow, Rock launched into a long, rambling, brilliant, but „purely psychotic confession“ that was like a „cross between an execution and a striptease.“ Waits, of course, was enthralled.“

Gott stöff.

Daglegt amstur

Eftir stórfelldar ruslpóstsárásir á vefsvæði Kaninkunnar síðustu vikuna hef ég neyðst til að setja upp síu. Það er skárra en að eyða milli fimmhundruð og þúsund tilboðum um ókeypis barnaklám og læknadóp á dag.

Goðafræði Snorra-Eddu lauk ég á örfáum dögum og tryggði mér fimm einingar til viðbótar. Get ekki sagt að ég mæli með því. Fyrir vikið er ég þó orðinn forvitinn um hvort mögulegt sé að ljúka öllum einingum til BA-prófs á einu sumri.

Tilvitnun dagsins er úr Ynglinga sögu:

Óðinn átti tvá bræðr. Hét annarr Vé, en annarr Vílir. Þeir bræðr hans stýrðu ríkinu, þá er hann var í brottu. Þat var eitt sinn, þá er Óðinn var farinn langt í brot ok hafði lengi dvalzk, at Ásum þótti örvænt hans heim. Þá tóku bræðr hans at skipta arfi hans, en konu hans, Frigg, gengu þeir báðir at eiga. En litlu síðar kom Óðinn heim. Tók hann þá við konu sinni.

Sumt lærist ekki

Á næstu dögum hyggst ég setja met í kokhreysti við Háskóla Íslands og klára fimm eininga áfanga á níu dögum. Það verður því lítið um fína drætti hér á næstunni.

Ef einhver hefur þegar gert betur ætti viðkomandi ekkert að vera að stæra sig af því, nema argúmentið sé að ljótasti maðurinn í Guinnessbókinni sé jafnframt sá stoltasti.

Upplestur á Menningarnótt 2007

Skálda- og útgáfufélagið Nykur efnir til upplestrar á Menningarnótt, þann 18. ágúst næstkomandi. Meðal annars mun Sigurlín Bjarney Gísladóttir lesa uppúr nýútkominni bók sinni, Fjallvegum í Reykjavík, sem þegar hefur hlotið góða dóma. Auk hennar munu ýmis skáld, yngri sem eldri, lesa uppúr verkum sínum, jafnt ljóð sem prósa.

Nánari upplýsingar má nálgast hér:
http://blog.myspace.com/index.cfm?fuseaction=blog.view&friendID=116107008&blogID=299468423

Ólíkt hafast þeir að

Utan við Glæsibæ í dag sat engin smásmíði af sjálfumglottandi leigubílstjóra í bílnum sínum teljandi seðil eftir peningaseðil af þvílíkri áfergju að sleftaumarnir blettuðu skyrtuna hans, nema hafi það verið grísafeitispakkinn sem sprakk innaná brjóstvasanum þegar hann hagræddi sér í sætinu við talninguna. Sterkari birtingarmyndir siðleysis eru fásénar meðal almennings.

Ekki eru þó allir leigubílstjórar jafn ógeðfelldir, a.m.k. ekki sá sem bauð mér ókeypis far í gærmorgun þegar ég hafði gengið heim á leið neðan úr miðbæ uppí Garðabæ, af einskæru óþoli eftir leiðinlegasta fyllerí í manna minnum. Skrifast það ekki síður á félagsskapinn en sjálfan mig. Bílstjórinn var þó hinn almennilegasti og ráðlagði mér að slaufa hattinum næst þegar ég áræddi að ganga þessa leið, því enginn stoppaði fyrir efnuðu fólki.