Kokteilboðið við enda Sunset Blvd.

Á hverjum degi ek ég Sunset Boulevard Íslands, Reykjavíkurveginn, tvisvar. Það er skárra á morgnana en um eftirmiðdegið, þegar bílalestin getur náð frá Garðabænum uppá Kringlumýrarbraut við brúna. Á brúnni í dag hékk borði sem letrað var á:

Hverra götur?
Okkar götur!

Hvað svo sem það merkir nákvæmlega hlýtur það að vera satt.

Þegar svo bílalestin loks leystist upp á Sunset Boulevard var mig farið að klæja í ódýra DVD-mynd – Þessar 990,- króna útstillingar eru guðsgjöf – svo ég kom við í Firðinum, eina staðnum í Hafnarfirði þar sem mektarmenn og auðnuleysingjar geta komið saman og fagnað gnægtum hins íslenska markaðssamfélags sem jafningjar. Þar varð mér starsýnt inn í Herra Reykjavík á Einar Ágúst með gítar og fólk með freyðivínsglös að gaula „Tell Me Twice“. Eðlilegur dagur í Firðinum býst ég við. Ég gekk þaðan út með ódýrustu jakkaföt sem sögur fara af.

Mér var ekki boðið freyðivín.