Dagsferðin

Áðan skrapp ég í IKEA og var í tvígang spurður hvort ég hefði ekki hugleitt að koma aftur til starfa. Þegar ég sagðist vera ánægður á bókasafninu uppskar ég sama svar í bæði skiptin: Jaaaá, alveg rétt. Þú varst alltaf svo mikið fyrir svoleiðis! Gekk ég út án stóráfalla fyrir budduna og þykist ég nú eiga allar nauðsynjar líkt og fyrri daginn. Þó gleymdi ég að kaupa það sem rak mig þangað til að byrja með og ég get ekki fyrir mitt litla líf munað hvað það var.

Fyrir utan sænsku velferðarkeðjuna – velferð í flötum kassa eru kjörorð þeirra – rann upp fyrir mér að ég hafði gleymt að skrúfa upp bílrúðuna, og tortímdust glósublöðin í rigningunni. Sannlega er ég meistari. Eigi að síður var notalegt að keyra inn í Hafnarfjörðinn með kristaltært rigningaloftið leikandi um bílinn meðan vatnið gufaði upp af glósunum undir léttum hita miðstöðvarinnar. Eins og lítið vor bara fyrir mig.

Lauk ég dagsferðinni á að koma við í sjoppu nokkurri , hvar ung stúlka hélt skimandi tófu sinni undir handarkrikanum. Bað hún um pylsubrauð með öllu nema hráum. Þvínæst fóðraði hún tófuna. Margt er í heimi hér.