Bókmenntaþátturinn Garðskálinn

Garðskálinn er kominn til að vera, við Jón Örn höfum samstillt huga okkar að því marki að fegra grunngildi íslensks bókmenntasamfélags, að hífa upp fagurfræðina, að bjarga samfélaginu gegnum listfengi! En umfram allt, að vera bóhem.

Þátturinn hefur nú gengið í langt á eina viku við töluverðar vinsældir allra áhorfenda, og því kynnum við með stolti þátt númer tvö. Umræðuefnið að þessu sinni er súr realismi, auk hins hefðbundna uppáhalds þematengda ljóði þáttastjórnenda. Nýr dagskrárliður að þessu sinni er skáld vikunnar, sem að þessu sinni er Johnny Triumph, og verður sérstaklega litið til nýútkominnar ljóðabókar hans, sem ég man ekki alveg hvað heitir.

Fyrsta skafa vetrar

Titill þessarar færslu er til heiðurs Sigurði Pálssyni sem var svo huggulegur að deila með mér bensínstöð nú í morgun. Hann stakk líka upp á þessum titli þegar hann sá að ég var orðinn stoltur eigandi minnar fyrstu sköfu.

Á annarri bensínstöð hafði ég séð þá furðu gerast að biðröðin útaf planinu beit í halann á röðinni inná planið einsog hysterískur jörmungandur. Engin furða að hún komst ekkert áfram. Líklega allir að kaupa sköfur.

Svo þegar ég renn á háskólaplanið sé ég að það er búið að spreyja „Tittlingar námu völd!“ eftir endilöngum Odda. Sama bylting og þegar Gervimaður Evrópa tók yfir sæti rektors, eða ný? Gildir einu, ljóðið er komið til að vera, og þótt fyrsta skafa vetrar ylji kannski ekkert sérstaklega, þá skefur hún fjandi vel.

Hvernir er það annars, er ekki fjandi barnalegt að röfla yfir endurútgáfu vafasamra tuttugustu aldar bókmennta á sama tíma og tvö- til þrjúþúsund ára gömul skræða sem inniheldur vægast sagt trénuð viðhorf, sem haldið er að börnum, er endurútgefin í n-ta sinn?

Hugsið ykkur frið

I.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fráfarandi borgarstjóri Reykjavíkur, vígði á dögunum Friðarsúlu Yoko Ono við hátíðlega athöfn í Viðey. Í yfirlýsingu Yoko við það tilefni kom fram að vonir hennar stæðu til að ljóskeilan mætti vera börnum huggun harmi gegn í vondum heimi, að hún gæfi þeim von þegar enga von væri að finna. Friður, kærleiki, bræðralag. Sjálft ljós heimsins, gjöf Yoko og Íslendinga til heimsins. Við sama tækifæri lýsti Vilhjálmur því yfir að Reykvíkingum væri sannur heiður sýndur með því að slíkt leiðarljós fengi að prýða borgina, heiminum til verðugrar áminningar. Friður er söluvara sem klikkar aldrei, og hann var stoltur hann Villi, enda ærin ástæða til: „Hugsið ykkur frið“ var letrað á mund keilunnar, á öllum heimsins tungumálum. Það höfum við fyrir satt að eru kjörorð Sjálfsóknarflokksins.

II.
Tveimur dögum síðar eru bítlar og blómabörn þeirra farin en súlan er enn í algleymingi; tvö tungl eru nú á himninum og meðan annað er hálft reynist hitt ekki eins hverfult: Ljós friðar og kærleika logar enn jafn skært og kvöldinu fyrr og það enda þótt Lennon sé farinn heim til Englands, þaðan sem lítt ómerkilegri tíðindi berast með öldum netvakans: In Rainbows, nýjasta plata Radiohead, er nú fáanleg á netinu. Kannski ekki hvítaalbúmið þeirra, en fjandi þétt engu að síður.

Radiohead, og þá ekki síst forsprakki þeirra, Thom Yorke, eru ekki síst þekktir fyrir afskipti sín af pólitík. Yorke hefur til dæmis barist fyrir skuldaaflausn Afríkuríkja, frelsi Tíbets og minnkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda, svo eitthvað sé nefnt. Á plötunni In Rainbows má þannig finna lög á borð við House of Cards og Videotape, sem sérstaklega voru samin fyrir tónleikahátíðina Free Tibet á síðasta ári. Þar má einnig finna lagið Nude, sem Yorke samdi á OK Computer-túrnum fyrir tíu árum. Enda þótt textinn hafi lítið eitt breyst gegnum árin er inntak lagsins enn það sama: Ekki fá stórar hugmyndir, það verður ekkert úr þeim. Upphaflegt nafn lagsins helgaðist enda af boðskapnum: „Big Ideas (don’t get any)“.

Í eins mikilli andstöðu og inntak lagsins Nude er við pólitísk markmið Thoms Yorke, Yoko Ono og – að því er virðist – Vilhjálms Vilhjálmssonar, má velta fyrir sér hvort ekki liggi nokkur sannindi þar að baki. Vilja ekki allir jú frið, bræðralag og jafnrétti? Eða hvaða hagsmunir liggja þar að baki? Geta ekki allir tekið undir nauðsyn þess að byggja börnum okkar betri heim, að skila honum til þeirra eins og við tókum við honum, ef þá ekki betri, ef slíkt er á annað borð á færi okkar? Að minnsta kosti virðist orkan ein ekki ylja hjartarótum Reykvíkinga þessa dagana, því við eigum friðarsúlu, og friðurinn lýsir hæverskur upp skammdegið af óvefengjanlegri reisn, ef ekki orkufrekju. Já, það er friður í Reykjavík.

III.
Nei, það er ekki friður í Reykjavík. Hógværar yfirlýsingar Vilhjálms Þ. nægja einar ekki til, því skyndilega er uppi fótur og fit vegna hins nýstofnaða orkufyrirtækis Reykjavík Energy Invest og aðkomu borgarstjóra að stofnun þess. Orkan yljar, sem fer í súlusjóið, en hún er skammgóður vermir. Friðurinn er úti. „Et tu, Binge?“ verða síðustu orð borgarstjóra. Að sinni. Því sannarlega reyndist friðurinn nægur til að vinir kæmu aftan að bestu vinum, ljóskeilan minnir okkur á það, þótt Yoko sé farin. Og Ringo og Lennon yngri. Vissulega var ljótt af Binga að græta vini sína, það er þó spurning hvort Gísli Marteinn finni frið í súlunni, þar sem engan frið væri annars að finna, hvort innhverf íhugun færi honum þá sáluhjálp sem hann svo þarfnast. Af myndinni í Netmogganum að dæma þarf hann altént meira en bara heitt kókó og bangsann sinn Bóbó.

Og á meðan við njótum þórðargleði okkar yfir öllum þeim fíflagangi sem viðgengst meðal pólitískra andstæðinga, eða bara almennt þeirri vitleysu sem viðgengst í þessum sirkus sem nefnist pólitík hér á landi, hljóta menn að spyrja sig þess hversu lengi nýr meirihluti kemur til með að endast, þegar hann veltur allur á einni manneskju, sem þar fyrir utan er hætt í flokknum sem hún kemur til með að starfa fyrir innan meirihlutans. Og þótt friður sé kannski kominn á að nýju, hvort sé í takmarkaðan tíma, á Bingi líklega fáa vini eftir; Júdasi beið víst enginn kanelsnúður við enda ljóskeilunnar. Mætti þá ekki heldur velta fyrir sér hvort þetta sé ekki ein þessara stóru vanhugsuðu hugmynda sem virtust góðar á sínum tíma, ef þær virtust þá nokkru sinni góðar.

IV.
„Don’t get any big ideas, they’re not gonna happen,“ syngur friðelskandinn og mannvinurinn Thom Yorke, meðan ljós heimsins, kraftbirtingarhljómur friðarins, lýsir upp næturhimininn og fjórflokkurinn tekur til starfa við að sópa hárkollum úr Ráðhúsinu. Já, ég held ég komi til með að spila það aftur og aftur á komandi misserum, allt þar til Yoko sér að ein friðarsúla mun seint nægja heiminum öllum. Hvað þá heldur Reykjavík. Uns líður að því getum við í öllu falli hugsað okkur frið.

– Birtist á Egginni þann 25. október 2007.

Ef velkistu í vafa

Fór utan veikur, kom aftur frískur. Vaknaði veikur aftur, veikari en fyrr, sýnist stærri og stærri bitar úr nefinu fylgja með í hvert bréfsnifsi. Það er eitthvað við loftslagið hérna. Ég er veikur allan ársins hring nema rétt á meðan ég skrepp til útlanda. Ó, linið þjáningar mínar með koníaki á köldum aftni.

Á Íslandi um helgar eru allir leigubílar fráteknir fyrir fullt fólk, en í Piacenza er þessu öðruvísi farið. Þar eru allir leigubílar fráteknir fyrir mílanskar mellur sem þangað berast með lestum til ýmissra gagnlegra nota (það er ekki sama, Via Appia eða Via Roma). Af þeim sökum mátti fyrir rúmri viku sjá ungan Íslending dragnast sjálfur með töskur sínar eftir illa upplýstum steingötum miðbæjar um nótt.

Sértu spurður hvað viðgengst í nágrenni lestarstöðvarinnar viltu svara sem fæstu í von um að bærinn glati ekki sakleysinu, bær þar sem mokað er yfir uppáhaldsleikvöllinn þinn svo menn hætti að selja sprautur þar, sama leikvöll og deildi almenningsgarði með glæpaklíkum og beittum ágreiningsmeðulum þeirra á næturna, sömu slagsmálum og lögreglan vaktar en ver ekki almenning gegn. Sértu spurður hvað viðgengst í nágrenni lestarstöðvarinnar máttu brosa og benda á að Milano Centrale er aðeins hársbreidd í burtu, ef líki þér ekki bærinn. Og fyllast stolti yfir mætti mannfæðarinnar, meðan Milano er milljónaborg og því hlutfallslega ba(r)nvænni. Gleymum ekki sígaununum, sértu spurður hvað viðgengst. Haltu þig annars heima, það gera allir hinir.

Líklega ertu ekki einn um að finnast tortryggilegt að illa klæddir blökkumenn selji kvenmannstöskur í göngugötunni. Já, það eru rasistar líka á Ítalíu.

Sértu ekki viss um að þú sért á réttum stað geturðu hughreyst þig við að Emil er alltaf handan við hornið með ráð við öllu hugarangri í formi alvöru kjötborðs og Birra Moretti á hálfa evru stykkið, já, jafnvel þótt til sé betri bjór. Og tak þinn bakpoka, maður! Fylltu hann af Moretti, salami, proschiutto og brauði; hjólaðu í almenningsgarðinn og skoðaðu hryðjuverk næturinnar, leggstu á hauginn miðjan þar sem leikvöllurinn var, segðu rónum að fokka sér ef þeir tala við þig því einum fylgir annar sem jafnan er með langa fingur. Drekktu bjórinn, fáðu þér pínu brauð á skinkuna og slafraðu í þig. Mundu að skinka er ekki sama og íslenski óþverrinn.

Loks: hjólaðu inní trjágöngin við göngugötuna (sjálfsmynd á ferð spillir ekki), dragðu fram blað og blýant, plantaðu þér framan við rónann sem sefur á bekknum. Skrifaðu bréf heim. Gegnum mistur verksmiðjanna skín sólin sjálf og fuglarnir syngja skærar en nokkru sinni fyrr, jafnvel þótt þú heyrir það ekki. Fegurðin er þeim mun meiri nú þegar þú hefur séð það ljóta. Njóttu hennar og opnaðu síðasta bjórinn. En umfram allt: gættu þín á íkornunum, fáðu ekki slíkan í andlitið ellegar sérðu eftir því. Gætir allteins gengið Via Roma í nasistabúningi. Daginn má fullkomna með kaffibolla á Piazza Duomo og ef vel er að gætt má ef til vill heyra organista dómkirkjunnar æfa fingurna fyrir barmafulla dagskrá helgarinnar.

Un biglietto dell'autobus, pronto!


Hér verður aðeins bloggað í stuttum athugasemdum á næstunni. Ég hef ekki sofið í einn og hálfan sólarhring.

Í gærkvöldi var ég nokkuð viss um að „Venezia 1000 m.“ þýddi að ég hefði álpast upp í vitlausa rútu. Líklega var átt við afleggjarann en ekki borgina.

Hvert sem leiðin lá var ég allavega sloppinn. Ribbalda þekki maður á stingandi augnaráði og öróttu andliti. „No, no, no! Mi dispiace. Ciao, no, mi dispiace!“ kemur manni ótrúlegar vegalengdir frá hnífsblaðinu. Umfram allt: ekki stoppa. Og hafðu á hreinu hvert þú ert að fara.

Milano er ekki borg heldur stórt, stórt slys. Félagsfræðitilraun sem mistókst. Bergamo er ekki ein borg heldur tvær. Klofin eins og ég.

Mikið hata ég Stansted.

Piacenza

Hér er stórfurðulegt að vera. Stórfurðulegt. Er á leiðinni á djammið (eða það held ég …) með Riccardo Anselmi. Það eitt og sér er eins furðulegt og það verður. Vegna samgönguörðugleika neyðist ég til að fara fyrr en áætlað var og hanga í Bergamo heilan dag að drekka caffe corretto og þykjast skrifa nýjasta kafla íslenskrar bókmenntasögu á straumlausa fartölvuna.

Myndin er af Piazza Cavalli þar sem ég sit núna á Caffé Ramenzoni og pára þessa þvælu. Veit ekki hvaðan ég fæ internetið, maður virðist aðeins geta stolið því úr heimahúsum hér um slóðir. Auk þess virðist mér ég vera eini gaurinn sem borgar strætófargjaldið. Hostelið er hryllingur (þeir skófla nýjum gaurum inná herbergi til mín daglega), maturinn er ágætur (át hrossakássu í gær) og fólkið fremur jarðbundið. Margt hefur breyst, Riccardo segir mér að KB-heilkennið sé alveg jafn ráðandi hér og á Íslandi. Sést líka á gulslifsuðu smjörkúkunum sem ganga göturnar á daginn. Þeir sjást blessunarlega ekki á næturna, kannski ekki síst þeirra vegna.

Hér talar enginn ensku. Sem er gott. Kannski ég komi ekkert aftur, get tekið lestina til Flórens hvenær sem mér sýnist …

Helgin – burtför

Þá er Nýhilhátíðin afstaðin, ef ég þyrfti ekki að pakka og klára verkefni fyrir skólann væri ég hins vegar á leiðinni til Stokkseyrar í fáránlega fínan mat með restinni af liðinu. En það er svo sem nóg af slíkri bóhemíu á Ítalíu.

Yfir helgina hef ég eignast nokkrar nýjar bækur sem ég get glaður tekið með mér til fyrirheitna landsins, þá ekki síst blótgælur frænku minnar og Wide Sleep For Lepidopterists eftir Angelu Rawlings.

Mikið óskaplega er ég ánægður með helgina, og mikið óskaplega hlakka ég til að yfirgefa sker og skríl. Þakkir mínar færi ég Viðari Þorsteinssyni og öðrum þeim sem stóðu að hátíðinni fyrir að bjóða mér. Svo og skáldunum öllum, ýmsum og margvíslegum sem þau voru. Ykkur hin sé ég seinna, au revoir!