Leiðréttingar pars I

Þeir sem þekkja mig vita að ég er allajafna afar hófstilltur maður (nema rétt meðan ég er ölvaður). Hins vegar eru nokkur atriði sem fara svo óheyrilega í taugarnar á mér að ég fæ ekki annað af mér en leiðrétta þau.

1. Málfræðingar eru ekki langskólagengnir til að leiðrétta allt sem þú segir. Þá er ekki þar með sagt að þeir geti ekki haft skoðanir á því.

2. Líkt og öll önnur dýr sem á annað borð hafa heila þarf maðurinn á öllu sínu heilabúi að halda; eins gallaðar skepnur og við erum verður seint sagt að rottur hafi það framyfir okkur. Það er ekki til neinn stór, ónotaður hluti af heilanum sem eitt sinn gerði okkur kleift að beita hugsanaflutningi.

3. Fullt tungl hefur engin áhrif á fólk önnur en ímynduð. Þó að sólin lýsi það misvel upp þýðir það ekki að eðliseiginleikar tunglsins breytist við það, auk þess er tunglið alveg jafn nálægt jörðinni samt! Ef tunglið væri slíkur frumkraftur í sjálfu sér hefðu tunglfararnir orðið vitfirrtir löngu áður en þeir lentu.

4. Coreolisáhrifin eru ekki nógu sterk til að hafa áhrif á snúning vatnsins í vaskinum þínum. Þau stýra veðrabrigðum, vindum, öðru ekki. Á sama hátt stýrir aðdráttarafl tunglsins ekki „sjávarföllum líkama þíns“ frekar en sólarljós á yfirborði þess stýrir geðsveiflum.

5. Þú ert ekki tvítyngdur þótt þú kunnir annað tungumál.

6. Feng Shui er ekkert meira en innanhússarkitektúr. Það byggir ekki á mörgþúsund ára gömlum lögmálum um vellíðan og andlega spekt.

7. Ínúítar eiga ekki hlutfallslega fleiri orð yfir snjó en aðrir þjóðflokkar. Þeir væru heldur ekkert andlegri þótt svo væri.

8. Grænmetisætur eru ekkert náttúrlegri en aðrir; maðurinn er alæta samkvæmt skilgreiningu. Að gera hundinn þinn að grænmetisætu er svo andskotakornið ekkert annað en viðurstyggilegar og refsiverðar pyntingar.

Amen.

Bókhlöðublogg

Fleygði kettinum ofan af sænginni eldsnemma í morgun til að:

a) Láta taka mig í gíslingu, stokkhólmseinkennið er raunar víðs fjarri.
b) Setjast inn á bókhlöðu með blóðnasir á þriðja degi, vona að bókavörðurinn sjái ekki dýrðina.
c) Hlusta á regnið og muna ekki af hverju ég kom hingað.

Uppfært kl. 11:37
Kaffið á Hlöðunni er gott sé það drukkið úr frauðplastmáli. Það er í sjálfu sér ástæða til að vera hér. Nýir eigendur, betra kaffi er málsháttur dagsins (novus medicinus …).

Lesning dagsins hljóðar svo upp á vænan skammt af algildismálfræði, sér í lagi poverty of stimulus, sem ég mæli með að flestir kynni sér. Stundum virðast þó Michael Crichton og Indiana Jones mætast í málvísindum og geta af sér furðulegar kenningar utan úr innstu myrkviðum suðuramerískra frumskóga eins og lesa má um hér (efnisgreinin um Pirahã). Tuttugu og eins árs gömul kenning sem enn hefur ekki verið sannreynd með fullnægjandi hætti. Það verður því ekki sagt að fólk standi á öndinni í Árnagarði í bið eftir frekari tíðindum.

Ennfremur þykir mér Sapir-Whorf tilgátan áhugaverð að svo miklu leyti sem ég er ósammála henni, þ.e.: „The hypothesis postulates that a particular language’s nature influences the habitual thought of its speakers. Different language patterns yield different patterns of thought.“ Það þarf ansi sannfærandi röksemdafærslu til að ég kaupi þetta.