Þrumuveður

Þrumuveður voru tíð í æsku minni á Ítalíu og mér fannst þau jafnan spennandi. Á Spáni fyrir rúmum tveimur árum fylgdist ég með þrumuveðri úti fyrir hafi en kunni illa við vilja meirihlutans til að fara út á efstu svalir hótelsins til þess arna. Nú þegar ég upplifi þrumuveður á Íslandi verður mér lítt um sel, þótt þær eldingar sem ég sá hafi ekki verið eins merkilegar og í Hollívúddmynd eða þær þrumur sérlega ógnvekjandi. Það er bara eitthvað við þetta fyrirbæri og framandleika þess hér á Íslandi, ekki síst meðan gengur á stormhviðum, hagli og regni sitt á hvað og mér liggur við að segja samtímis.

Serjeant at Arms

Halldór bloggar um dálæti sitt á breska þinginu. Í ljósi þess vil ég benda á eftirminnilega færslu Atla Freys um embættisskyldur Serjeant at Arms. Það hefði verið skondið ef Halldór Blöndal hefði hlaupið með brugðið sverð á eftir Jónsa í SigurRós á sínum tíma, þegar síðarnefndi ætlaði allt vitlaust að gera uppi á þingpöllum í mótmælum gegn Kárahnjúkavirkjun.

Þegar strætóskýlin springa

Fregnir af óveðrinu eru farnar að minna á storminn sem gekk yfir höfuðborgarsvæðið í apríl 1991. Þá braut rokið grindverk með föður mínum og reif upp stærsta tré Laugarneshverfisins með rótum og lagði snyrtilega yfir Kirkjuteiginn, eins og til að varna djörfum foreldrum frá að keyra börnin sín í skólann. Gott ef það voru ekki Almannavarnir – sem virðast gjörsamlega horfnar úr lífi landsmanna, eyrum skólabarna til sárrar heilsubótar – sem björguðu mér frá því að sækja skólann þá daga. Líklega eins gott, því í Laugarnesskóla var og hefur verið ófrávíkjanleg regla að meina krökkum aðgang að skólabyggingunni í frímínútum, sama hvernig viðraði.

Þetta vekur upp óhjákvæmileg hugrenningatengsl við þessa færslu Salvarar Gissurardóttur, sem var svo væn að tengja af sinni síðu á minningabálk minn um Laugarneshverfi, sem alltaf stendur til að betrumbæta. Nú í seinni tíð virðist börnum haldið frá skóla í minnstu gjólu, hvað þá ef hann tæki upp á því að snjóa! (ég hljóma eins og gamalmenni þegar ég segi þetta), en fyrir mitt leyti óar mér við því að keyra alla leiðina ofan úr Hafnarfirði í þessu veðri. Þegar strætóskýlin springa og trén rifna upp með rótum gæti minnsta rifa á glugganum gert ljóta hluti við saklausa litla aldamótabílinn minn, svo ekki sé minnst á ungbókavörðinn við stýrið.

Þegar sá hlédrægi og orðspari veðurfræðingur Einar Sveinbjörnsson talar um „ljóta spá veðurstofunnar“, þá finnst mér tilefni til að taka því alvarlega.