Seinleg athugun

Byssan gerir aldrei skyssan segir máltækið. Auðvitað gerði hann enga skyssu í stóra Morfísmálinu, það sem gert er að undirlögðu ráði getur varla flokkast sem mistök, þótt það sé ef til vill misráðið eftir á að hyggja. Mistök eru engin afsökun fyrir að vera hálfviti.

Hitt er svo annað að ef umræðurnar á vefsíðu téðrar Byssu eru til marks um þá mælskulist sem Morfísmenn vilja halda til haga fæ ég ekki annað séð en það sé kominn tími til að leggja þetta niður. Nóg er til af gróðrarstíum hroka og heimsku samt.

Bækur

Þegar ég mætti í skólann beið mín eintak af Ást á grimmum vetri frá honum Sigtryggi. Ég er ekki frá því að mér þyki meira í hana spunnið núna en þegar ég las hana síðast fyrir rúmi ári. Hver veit nema sama verði uppi á teningnum hjá Steinunni Sigurðardóttur, sem Kistudómur dagsins er tileinkaður. Það er einhver einkennilegur hörgull á kápumyndum á netinu nú um mundir, að því er virðist, og því þurfa lesendur að horfast í augu við höfund – eða spegilsjálf hennar – við lestur dómsins. Skárra væri það nú en ef höfundar ginu yfir ritdómurum að störfum.
Nú hefur einn kennari líkt norrænum miðaldasögum við ástandið í Ráðhúsinu. Annar kennari líkti því svo við harmleikinn Antígónu eftir Sófókles. Þriðji kennarinn talaði svo um misbeitingu valdhafa gegnum tungutak. Þá er eftir að sjá hvað hann segir um meirihlutamyndanir, orðmyndunarfræðikennarinn.

Góður dagur

Þegar ég vaknaði á slaginu sjö í morgun ætlaði ég varla að trúa því, fyrr en ég leit út um gluggann. Veðrið virtist ekkert of slæmt, og fyrir utan að ég vildi ekki spilla þessum einstaka áfangasigri þurfti ég eftir sem áður að flytja fyrirlestur í skólanum uppúr klukkan átta. Undir eins og ég komst undir bert loft versnaði veðrið, og þegar verst lét var skyggni kannski um tíu metrar á Reykjavíkurveginum.

Þar lenti ég nærri því í árekstri við Garðabæjarafleggjara hinn meiri, þegar ökumaðurinn á undan ákvað að ná ekki gula ljósinu og snögghemlaði með þeim afleiðingum að ég þurfti að gera slíkt hið sama. Sá hringsnerist nú samt yfir gatnamótin en sumardekkjamegin voru góð ráð dýr. Með einhverjum ráðum tókst mér þó að beina Öldunni minni upp frárein inn í Garðabæ og taka u-beygju aftur inn á Reykjavíkurveg áður en umferðin fyllti æðarnar og endaði beint fyrir aftan bremsumann sem hafði á undraverðum tíma náð að rétta af sinn bíl. Það vakti athygli mína að lögreglan, sem venjulega vaktar þessa leið á hverjum morgni, var fjarri góðu gamni að þessu sinni.

Þegar á háskólasvæðið kom dreif elskan mín ekki upp á plan og sá ég því þann kost einan að snúa við – þar til ég sá slóða eftir bobcat sem lá þvert yfir grasið Norrænahússmegin milli stólpa annars bílastæðis og þá leið fór ég á Aldamótadísunni minni eins og einhver borgarstjóri, og rétt passaði milli stólpanna. Þegar í Árnagarð kom var enginn mættur, mér til þónokkurra áhyggja, en það rættist nú úr því og einhvern veginn tókst mér að flytja mína framsögu án þess að verða að gjalti.

Þegar skóla lauk reyndist Aldan svífa svo létt yfir snjónum að ég komst klakklaust af stæði, allra minna ferða, með tvo heila tíma til stefnu áður en vinna tæki við. Því leyfði ég henni að þiðna á Kringluplani meðan ég spókaði mig spekingslega um salarkynnin, og þegar ég kom í vinnuna var ég í þvílíku sólskinsskapi að ég mokaði göngustíginn að safninu svo gamla fólkið kæmist leiðar sinnar. Nú verðlauna ég sjálfan mig fyrir frammistöðu dagsins með ísköldum bjór sem hefur fengið að lúlla sér í friði í svölu skotti Aldamótadísunnar í allan dag, og Death Proof eftir Tarantino bíður gláps.

Ég er afar einfaldur náungi, það skal játast. En mikið djöfulli er ég fokkíng sáttur.

Grautur

Á meðan ég gerðist „myndarlegur“, eins og amma mín segði, og mallaði grjónagraut alveg sjálfur eftir hvatningu Baunar, sem einnig er móðir langtímaskólasystur sem er sigurskáld – sem var vel ætur í þokkabót og rúmlega það! – var nýr meirihluti myndaður í borginni. Einn fór út í kjölfar spillingarmáls, sá næsti í kjölfar jakkafatakaupanna ógurlegu. Ólafur F. gerði náttúrlega bara það besta hvað hann gat fyrir sjálfan sig, enda snýst pólitík ekki um neitt annað.

Ef þið ætlið að kvarta undan setningaskipaninni hér að ofan vísa ég til reglunnar um tilvísunarsetningar sem hluta af nafnlið sem einnig er frumlag.

Til að fagna graut dagsins – lesendum fer nær um hvorn ofantaldra grauta ég á við – fór ég í ríkið og keypti pínu smá. Þar uppgötvaði ég að íslenska stéttskiptingu má sjá á flíspeysum. Verkamenn streymdu í hrönnum innúr dyrunum í 66°N flíspeysum. Úthverfamillistéttin á jepplingunum skoðaði rauðvínsbeljur á Cintamanipeysum (Cintamani hélt ég lengi vel að væri veitingastaður á par við Serrano). Ég, námsmaðurinn, borgaði hinsvegar bjórinn með klinki í flíspeysu úr Rúmfatalagernum. Þannig er nú það.

Það minnir mig á að ég hef víst nóg að gera. Ætla að fara að gera það núna. Jamm.

Hafragrautur

Annað hvort er sérstakt trix að búa til hafragraut nema innihaldið samanstandi ekki eingöngu af mjólk, salti og haframjöli. Ógott, en ætt.

Latínukennarinn minn í MR kvaðst vakna sérhvern morgun á slaginu sex til að malla sér hafragraut. Eftir fimm diska af þeirri garpafæðu þyrfti hann ekki að borða neitt meira yfir daginn.