Og verkefnastaflinn vex …

Til að fagna töluvert hærri launatékka þann 1. mars næstkomandi keypti ég Skáldið á daginn eftir Jóhamar. Varð að sjá um hvað þessi mærðargeðveiki snerist, og ég verð að segja að ég er sammála flestum dómum. Er hálfnaður með bókina í fyrsta holli og það sem ég hef hingað til lesið er stórgott.

Þann fyrsta febrúar næstkomandi verð ég semsé 55% bókavörður, sem ætti per se að nægja til að koma mér í stéttartalið ef það yrði þá nokkru sinni endurútgefið. Það er nokkuð sérstök tilfinning. Óbreyttum bókavörðum fer raunar hríðfækkandi, allir með BA-gráður núorðið, líklega um helmingur í bókasafns- og upplýsingafræði, og bókasafnsfræðingar tilheyra öðru stéttarfélagi en við hin.

Ágústi Borgþóri þakka ég svo veglega bókagjöf. Þeirra á meðal er sú goðsagnakennda ljóðabók Eftirlýst augnablik, sem margir hafa heyrt af en færri hafa lesið. Látum oss sjá hverslags litteratúr er þar á ferðinni …

Með öllum þeim bókum sem mér hafa verið gefnar að undanförnu, auk þeirra sem ég hef keypt, hef ég því nóg að lesa. Og enn bíð ég eftir bók frá Kistunni sem mér var falið að ritdæma, þegar og ef hún berst mér í pósti. Það er því ekki miklu meira bætandi á þessar 17 einingar sem ég er skráður í við tvær mismunandi skorir í Háskólanum, semsé. En fjandinn hafi það ef það er ekki bara fínt að hafa nóg að gera.

Lífsgæðavændið heldur áfram

Góðir hlutir gerast einhvernveginn. Á dögunum samdi ég við ýmsa lánadrottna sem reyndar voru svo skilningsríkir að þeir buðust til að lána mér enn meiri peninga. Hafði nú vaðið fyrir neðan mig í þetta skiptið. Á sama tíma falaðist ég eftir meiri vinnu hjá Borgarbókasafni en var heldur vonlítill. En símtal sem ég fékk nú í morgun dregur af allan vafa, ég kem til með að vera í 55% vinnu á mínu ástkæra Sólheimasafni megnið af þessari önn! Fullkomlega sjálfbær önn svo ég sletti tískuorði, ekkert kerfi lengur til að halla sér á, engin lán. Og ef vel tekst til að samhæfa vinnu og nám get ég haldið þessu til streitu í framtíðinni.

Mér var hvort eð er orðið skapi næst að taka frí frá námi svo ég eignaðist nokkra peninga, þetta er einhvers konar millivegur. Auk þess líður mér betur í vinnunni en nokkursstaðar annarsstaðar, hvað svo sem það segir um mig. Fyrir utan að öll „lífsgæðin“ kosta: farsími, bíll, internet, áfengi. Ég hef ofurselt mig þessum hlutum. Þannig að það sem eftir lifir dags verð ég í vinnunni, kátari en Ödipus.