Almennilegt

Veðrið í gær var stórmagnað. Það hefur raunar sína ókosti að sækja nám til Reykjavíkur ef maður býr í Hafnarfirði. Ekki síst ef maður hefur hangið yfir kaffibolla til lokunar kaffistofu Árnagarðs, gerir svo tilraun til að skafa af sumardekkjuðum bílnum þótt það þýði lítið í ofankomunni, og uppgötvar eigi fyrr en í miðri ösinni að maður lagði af stað á versta mögulega tíma, einmitt þegar allir reykvíkingar virðast halda að þeir búi í Hafnarfirði.

Umferðin var furðugreið raunar, síðustu tuttugu mínúturnar af rúmlega klukkutíma langri bílferðinni frá Háskóla suður í fjörðinn. Syðsti endi Reykjavíkurvegarins var líkastur skíðabrekku og samúðarblandnar hláturviprur munnvika sendi ég þeim sem sátu fastir eftir endilangri Strandgötu upp hálfa brekkuna í hina áttina vegna áreksturs ofarlega. Leikurinn var víst ekki búinn því lögreglan stýrði umferðinni síðustu gatnamótin eftir hringtorgið við Hvaleyrarbrautina, en gleymdi víst íbúum holtsins sem sátu fastir í bílaröð næstu tuttugu mínúturnar eftir að ég kom heim, ef ekki lengur. Annars nýt ég þess að hafa svona mikinn snjó, mér finnst það algert æði. Bara hí á þá sem fara í fýlu.

Að þessu sögðu langar mig að kynna sambland nýyrðis og tökuorðs. Það hefur löngum farið í taugarnar á mér þegar litli bróðir minn sýnir mér blingrið sitt og kallar það bling bling. Þess vegna mælist ég til að við köllum þetta bara blingur, beygist eins og glingur.