Þessi bók er ekki þessi bók

Í desembermánuði 2007 barst Garðskálateyminu skeyti frá innherja á Borgarbókasafni Reykjavíkur. Efni skeytisins var trúnaðarmál, en okkur er sama enda varðar þetta þjóðaröryggi! Svo virðist nefnilega vera sem einhver hafi laumað dularfullri fölsun af bók eftir Italo Calvino inn á bókasöfn og bókabúðir landsmanna, jafnvel í von um að vænkast sjálfur af vinsældum annars manns! Þetta var klárlega verkefni fyrir Garðskálann.

Garðskálinn hefur gengið í endurnýjun lífdaga, kominn með nýja og sérlega glæsilega heimasíðu á Tregawöttunum. Fyrsti hluti af þremur af fyrsta þætti nýrrar syrpu birtist einmitt á Tregawöttunum í dag, en hann má einnig sjá hér að neðan. Um flutninginn komst ritstjórn 10000tw svo að orði:

Gífurlegar vinsældir bókmenntaþáttarins Garðskálans hafa væntanlega ekki farið framhjá æstum aðdáendum íslenskra bókmennta – með sín skínandi fögru augu – en fyrsta sería þáttaraðarinnar var jafnvel enn æsilegri en hún var beint-í-mark, og er þá tekið djúpt í öllum árum. Leiftrandi gáfnafari tvímenninganna Loðmfjörð og Vídalín er ekki líkjandi við neitt – nema þá kannski allra uppljómuðustu augnablik hins apostrófíska Bernarnds Pivot. Eftir miklar – langar, strangar og þröngar – samningaviðræður hafa Tíu þúsund tregawött fest kaup á sýningarréttinum á annarri seríu þessarar mögnuðu þáttaraðar.

Sérlegur gestur þáttarins að þessu sinni er Haukur Már Helgason, rithöfundur. Haukur Már er fæddur árið 1978. Meðal útgefinna verka má telja ljóðabækurnar 2004 og Rispa jeppa og skáldsöguna Svavar Pétur & 20. öldin. Til er önnur bók sem Haukur Már gengst ekki við að hafa skrifað, en það er Riddarinn sem var ekki eftir Italo Calvino. Haukur Már er jafnframt fyrsti gestur hins sívaxandi Garðskála.

Mölin

Er í litlum kofa á mölinni, hringi stutt, langt, stutt, held símtólinu við eyrað og bíð; heyri smelli frá tólum sem eru tekin upp og surg í krakkanum, lágværan andardrátt, þrusk frá lófa sem er haldið yfir, fjarlæga ræskingu, og svarað með lágu hallói. Allir í þorpinu eru að hlusta og ég veit að öll vita að ég veit en við tölum ekki um það, þegar ég heimsæki eitthvert þeirra næst látum við eins og ekkert, við erum fá hérna, og á daginn er myrkrið óþolandi, og kuldinn á nóttunni og suðið frá mölinni að raðast í öldur og molna í vindinum. Ég opna munninn til að segja eitthvað en hika, ég finn það – hvernig ég þagna, eins og ég geti ekki meira, ég þegi og hún líka og við þegjum öll saman og hlerum.

– úr Útgönguleiðum eftir Steinar Braga.