Af viðbjóðslegum endurútgáfum

Í dag hefði Þórbergur orðið 120 ára. Í tilefni þessa merkisafmælis hefur Mál og menning ráðist í að endurútgefa höfundarverk hans í forljótum kiljuóskapnaði. Þegar eru komnar út Bréf til Láru og Steinarnir tala – sem er skrýtið því síðarnefnda er hluti af stærra verki sem væri nærri lagi að gefa út í einni bók. Og til að bíta höfuðið af skömminni koma ekki fleiri bækur út í ár að því mér skilst. Bravó, Mál og menning.

Síðasta endurútgáfa á Þórbergi taldi aðeins Bréf til Láru, Íslenzkan aðal og Ofvitann, og voru þær þó sýnu ljótari, og hver veit nema til hafi staðið þá eins og nú að gefa út allt heila klabbið en menn hætt við eftir fyrsta árið. Sama er uppi á teningnum með Gunnar Gunnarsson. Það er liðið ár frá síðustu grútljótu kilju, en hvar er afgangurinn? Og í alvörunni, hver hannar þetta? Ritsafn Steinars Sigurjónssonar sést enn ekki í búðum, en að þessu sinni gerðu þau eitthvað rétt og gáfu það út á einu bretti. En þá er eftir að sjá hvort bækurnar verði sama lýti á ljótustu bókahillu eins og hin stórverkin. Hvers vegna fá aðeins bækur Halldórs Laxness að vera fallegar?

Bókalistinn

Ég hef enn á ný uppfært bókalistann og einfaldað flokkakerfið. Að þessu sinni hverfast breytingarnar sérstaklega um flokkinn fornrit/miðaldabókmenntir og svo ævisögur, þótt einhverjar viðbætur megi finna í hverjum flokki, ekki síst ljóðunum. Ef eitthvert ykkar á eitthvað af þessu á reki – þótt sérstaklega sé það hæpið um miðaldabókmenntirnar, enda hreint ekki ókeypis bækur nema síður sé – þá endilega droppið línu í athugasemdirnar neðst á síðunni. Þær verða ævinlega opnar.

Hvað snertir hillumetrann af bókum sem ég gaf hér um daginn þá ætla ég að reyna að keyra það til fólks á næstunni. Heimilisföng sendist á arngrimurv [hjá] simnet [punktur] is ef ég veit þau ekki þegar.