Kiljan

Egill lýsir yfir aðdáun sinni á kvikmyndinni eftir Sögu Borgarættarinnar.

Klippt: brot úr Sögu Borgarættarinnar er sýnt.

Áhorfandinn er nú staddur með Agli og Jóni Yngva í anddyri Landsbókasafns þar sem er sýning helguð Gunnari Gunnarssyni. Egill lýsir yfir aðdáun sinni á kvikmyndinni eftir Sögu Borgarættarinnar. Jón Yngvi segir að skáldinu hafi nú ekki þótt myndin féleg. Áhorfandinn heyrir ekki lengur í Jóni Yngva.

Klippt: brot úr Sögu Borgarættarinnar er sýnt.

Af fiðurfénaði #3

Þegar ég bjó hjá mömmu fannst mér alltaf vera kjúklingur í matinn, og alltaf neitaði ég að borða hann. Í eitt skiptið þá reyndi ég að finna hentuga leið til að losna undan þessu harðræði. Svo ég lýsti því yfir við matarborðið að það væri með öllu óferjandi að bera þennan viðbjóð inn á heimilið því kötturinn snarbrjálaðist í hvert sinn gólandi eins og ófreskja kringum okkur borðandi. Þá sló mamma hnefa í borðið og sagði að kötturinn skyldi sko ekki fá að stjórna því hvað fólk legði sér til munns á hennar heimili. Ég bjóst ekki við svona góðu svari.

Annars hef ég ákveðið að leyfa athugasemdir aftur. Í bili. Ekki búast við að ég svari þeim samt.

Af fiðurfénaði #2

Í þau skipti sem kjúklinganeysla mín berst í tal er fólk gjarnt á að spyrja mig hvað sé eiginlega að mér, að kjúklingur sé svona og svona og hann geti þess vegna bragðast eins og ávöxtur skilningstrésins ef maður vildi. Fólk gerir almennt ráð fyrir að ég þurfi að eiga mér málsbætur, eða að því komi yfirleitt við hvað ég set upp í mig.

Svo fellur talið niður, en í nokkrar vikur á eftir fæ ég að heyra af hinum og þessum kjúklingarétti sem ég myndi nú borða, því hann sé svo góður og svona en ekki hinsegin. Allir vita nefnilega betur en ég hvað mér mun finnast gott.

Segðu við grænmetisætu að hún myndi nú samt borða flísað hreindýr í villibráðarsósu með gratíneruðum kartöflum, það sé nú ekki beinlínis eins og að borða kjöthleif enda miklu betri matur. Ímyndum okkur að siðferðisþrekið hafi ekki verið sterkt til að byrja með, en henni þætti kjöt bara ekki sérlega aðlaðandi matur. Eða að henni þætti kjöt gott en siðferðiskennd hennar meinaði henni að rífa í sig aðrar skepnur. Eða það sem ótrúlegast væri: Ímyndum okkur að hún þyrfti ekki að afsaka sig. Hvernig væri það nú?