Mótmælum mótmælt

Mér er óskiljanlegt hvers vegna fólk er að mótmæla mótmælum, hvort heldur það er vegna fjöldamorða á Afgönum, Írökum, Tíbetum eða barsmíðum á ljósálfum í Saving Iceland svo ekki sé minnst á róttækar aðgerðir vörubílstjóra. Ef beinskeyttar aðgerðir er það sem þarf þá er það ekkert flóknara. Miðað við hvernig stjórnvöldum er tamt að bregðast við hvers kyns mótmælum má það vera alveg ljóst að hin hefðbundnu íslensku mótmæli duga einfaldlega ekki lengur, og já, ef það er það sem þarf, þá ber almenningi að „kúga“ stjórnvöld til að fá sínu framgengt – hvor kaus enda hvern til að fara með stjórn í þessu landi? Menn geta svo verið sammála eða ósammála málstaðnum, en eftir sem áður er það lítilsvirðing við réttinn til að mótmæla og gengisfelling á lýðræðishefðinni að vera fúll á móti þegar fólk lætur í sér heyra. Verstir þykja mér frjálshyggjuguttarnir sem leggja skatta og mótmæli að jöfnu við ofbeldi. Sitthvað er nú ofbeldið. Ef fólk vill hvorki búa í samfélagi eða við lýðræði getur það bara farið eitthvert annað. Zimbabwe, til dæmis.

Eftir miðnætti á mánudegi

Núna hefst geðveikin fyrir alvöru. Ég drekk ekki á meðan né geri nokkuð annað en rykfalla inni á bókasöfnum meðan hárið og „skeggið“ vex utan á mér. Ef ég verð ennþá til frásagnar í maí, þegar allt er búið, má gera ráð fyrir að ég detti það harkalega íða að ég muni ekki næsta hálfa ár á undan. Mér skilst þeir hafi það svipað á Vogi, enda er stutt bil milli náms- og vistmannsins …