Ég missi jafnan trú á mannskepnuna

Þeir sem fárast yfir bingóspili á föstudeginum langa hljóta að vera alvarlega veikir í sinninu. Það kemur ríkisvaldinu ekki við hvað fólk gerir í frítíma sínum svo lengi sem það skaðar engan. Og þaðan af síður kemur það kirkjunni við, fremur en skattstjóranum eða öðrum stofnunum ríkisins, hvort fólk spili bingó eða ekki. Hvað þætti nú fólkinu ef bannað yrði að „drýgja hór“ á þessum degi, að bannað yrði að lesa nokkuð annað en nýja testamentið, að bannað væri að horfa á sjónvarpið? Hverjum kemur það við?

Lög eru sett til að þjóna hagsmunum fólksins, þegar lög eru hætt að gera það eru þau afnumin. Ef skemmtanabann á föstudeginum langa væri vilji fólksins, þá myndu ekki allir skemmtistaðir, barir, næturklúbbar, súlustaðir og hóruhús opna á slaginu tólf og troðfyllast á „mesta djammdegi ársins“. Okkur sem er sama hver var krossfestur ætti að vera í sjálfsvald sett hvernig við eyðum lögbundnum frídögum okkar, en á meðan fólk fárast mest yfir bingóspili af öllu því sem gerist sérhvern langan föstudag, þá sé ég fátt annað en skynsemina á krossinum, reiðubúna til að deyja fyrir firringu mannskepnunnar.

One thought on “Ég missi jafnan trú á mannskepnuna”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *