Lífið á görðunum

Hvað er betra á síðkvöldi en fjórfaldur sojalatté með eðalkólumbískum baunum með súkkulaði og möndlukeim frá Kaffitári? Ekkert nema að öðru viðbættu. Sit hérna, sötra minn latté og maula múslírúnstykki með skinku og osti með Arcade Fire á fóninum. Velti fyrir mér milli þess sem ég les bókmenntakenningar hvort líf mitt sé farið að líkjast Questionable Content fullmikið. Ójæa, nú er víst ekki annað eftir en að hefjast handa á Ritgerðinni með stóru r-i. Allar ritgerðir eru með stóru r-i hjá mér.

Stúdentalífið

Ég ætti kannske að breyta þessari síðu í svona stúdentablogg. Líf stúdentsins í hnotskurn snýst fyrst og fremst um lífið á Görðunum, ritgerðaskil í pósthólfið í Árnagarði/Odda, ferðir á Þjóðarbókhlöðuna, kynlega kvisti sem þar leynast milli hilla, latté á Kofa Tómasar frænda, debatta um hvað sé besta kaffið frá Kaffitár, frískleg morgundögg eða kvöldroði, rustalegt hár, lopapeysur og hvaða indietónlist er í græjunum hverju sinni. Aðra hverja helgi mun ég svo blogga um stúdentafögnuði á öldurhúsum bæjarins, t.d. vísindaferð heimspekinema, rannsóknaræfingu hugvísindadeildar og árshátíð sagnfræðinema. Hverjir voru hvar, hver fór í sleik við hvern. X-Röskva aftan við og slaufan er bundin um pakkann.

Hvað halda svo lesendur að mikið af þessu eigi við mig?