Hið daglega amstur

Ég lét merkja við mig í símaskránni á dögunum eftir að VÍS hringdi í mig með þær upplýsingar að þeir hefðu njósnað um hvar húsfélagið mitt væri tryggt. Til hvers það þarf að tryggja sundurlausan hóp fólks sem á það eitt sameiginlegt að búa í sama húsi veit ég ekki. Í gær hringdi svo Síminn í mig en ég lét það hjá fara að tilkynna þeim um merkinguna, sagði aðeins að ég vildi ekki láta trufla mig.

Í dag er ég svo staddur hjá Vodafone að greiða símreikning. Í því hringir Síminn. Ég lét manneskjuna vita af því að það væri nú merkt við mig í símaskránni og fékk það tilbaka að þau fengju númerin ekki úr símaskránni. Ha? Hafa þessi viðrini yfirleitt kynnt sér lagarammann sem þau starfa innan? Undir 14. grein laga um húsgöngu- og fjarsölusamninga segir meðal annars:

Seljendum vöru og þjónustu sem lög þessi taka til ber, áður en bein markaðssókn er skipulögð, að kanna [bannskrá Þjóðskrár]1) yfir þá sem vilja ekki að nöfn þeirra séu notuð við markaðssetningu, sbr. ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Hafi neytandi óskað eftir því að vera færður í skrána er bein markaðssókn til hans óheimil.

SAMANBER ÁKVÆÐI LAGA UM PERSÓNUVERND OG MEÐFERÐ PERSÓNUUPPLÝSINGA! Símaskráin kemur þessu fjandans ekkert við, ég er líka merktur í Þjóðskrá og þeim bar skylda til að kanna það.

Nú, eftir ritgerðarskil í Árnagarð hnaut ég um það á heimleiðinni að Vodafonehöllin að Hlíðarenda er merkt „Vodafone Höllin“ og lét það fara í taugarnar á mér. En svo komst ég að því að Íslendingum er líklega vorkunn að þurfa í sífellu að taka sundur samsett orð í huganum, fálmandi í örvæntingarfullri tilraun til að skilja merkingu þeirra, æ ofan í æ ofan í æ. Slíkt er venjulegu fólki hreinlega ekki bjóðandi, enda er Vodafone og hefur verið verndari smælingjans allt frá stofnun þess í frönsku byltingunni þegar Luc d’Voudefoune gerði manifestó byltingarmanna skiljanlegt handa alþýðu. Svo hljóðar hið heilaga fokkíng orð.

Leiðinlegt blogg

Nú hef ég unnið nær sleitulaust síðan á hádegi í gær og loks sér nokkuð högg á verkefninu sem fyrir lá, að fjalla um höfðingjavald í Sturlu sögu. Vona þá að mér hafi tekist að gera það með sannfærandi hætti. Morgundagurinn fer að mestu í að þétta verkið og hnýta lausa enda áður en klukkan slær tíu að kvöldi og járnhlið Árnagarðs lokast að eilífu við hrafnagarg heljar. Það er raunhæfa verkefni morgundagsins, svo ég tali eins og HR-stúdent.

Lesendum til yndisauka birti ég hér uppáhaldsklausu mína úr Sturlu sögu. Mér er í alvöru spurn hvers vegna fólk eyðir tíma sínum í endursýningar á Beverly Hills 90210 eða OC þegar það getur setið heima og lesið miðaldabókmenntir:

Þórhallur hét bóndi. Hann var Svartsson. Hann bjó að Hólmlátri á Skógarströnd. Hann átti Æsu Þorkelsdóttur. Hann var auðmaður mikill og sterkur og ódæll. Hann var þingmaður Þorleifs beiskalda og gjafvin. Þau áttu þrjár dætur, hétu Þórdís, Þórný og Helga.
Þórnýjar fékk Þorsteinn drettingur. Hann hafði þá góðan fjárhlut og réðst hann til Hólmláturs með fé sitt. Þá kom það upp að Þórný hafði verið ólétt gefin og átti sá maður barn við henni er Þórður hét og var allskillítill. Þorsteinn drettingur átti og barn í vonum og var því leynt. Guðrún Ásbjarnardóttir sagði og þá að Þorsteinn var faðir að barni hennar því er þá var nokkurra vetra gamalt. En er það kom upp allt saman þá lét Þórhallur kenna mannamunar og dró fé Þorsteins allt undir sig en hann var sjálfur lagður í vinnu. En ef hann lagði til þá var hann hraktur í orðum eða barður. Ekki var Þorsteinn vinsæll maður.