Kristján í Litlu flugunni

Mér krossbrá við fyrirsögnina „KK látinn“ en mundi þá skyndilega eftir þeim eldri, það er að segja úr Litlu flugunni við Laugarnesveg. Ég vissi ekki að það væri sami maður, hvað þá að hann hefði stofnað Verðlistann við Laugalæk – sem ennþá er starfræktur samkvæmt minni bestu vitneskju. Einhver allra síðasta leif um þá tíma þegar sjálfstæður atvinnurekstur í úthverfum var mögulegur.

Karlinn var mishrifinn af hnýsni okkar Arnars vinar míns þegar við bönkuðum upp á í kjallaranum á Laugarnesveginum, en stundum sýndi hann okkur þær flugur sem hann var nýbúinn að gera og gerði sitt besta til að útskýra til hverra sérhæfðu hlutverka þær voru ætlaðar. Við skildum auðvitað ekkert, en mér hefur lengi leikið forvitni á að vita hvernig viðskiptin gengu. Ég man aðeins einu sinni eftir að hafa séð kúnna hjá honum, en það segir meira um hversu sjaldan við þorðum að hringja bjöllunni.

Svona læðast minningarnar stundum aftan að manni.

Sól – rigning – sól – rigning

Náttúran er að fokka í manni þegar það er sól öllum stundum sem maður getur ekki setið úti á svölum og drukkið bjór – þvert ofan í veðurspána – en rigning þegar maður getur það. Mér fannst það óréttlátt um stund eftir að ég vaknaði með sólina í andlitinu en komst að þeirri niðurstöðu að þetta sé leið náttúrunnar til að fá mig til að hætta að drekka bjór. Ekki að hún virki, come rain or come shine.

Annars er þetta ágætt. Ég vaknaði snemma (klukkan fimm) og er að horfa á Denis Leary yfir fleiri kaffibollum og sígarettum en ég þori að telja. Tryggir að ég sofna ekki undir stýri á leiðinni í vinnuna, eða yfirleitt, næstu sjö árin. Fann líka skilaboð frá bróður mínum á símanum. Hann er að fara á Tom Waits í París þremur dögum áður en ég sé hann (Waits) í Dublin. Mér sýnist allt stefna í að halda þurfi stemningskvöld fyrir tónleikana, helst nokkur svo hægt sé að kóvera allt efnið og koma sér í gírinn. Maður veit aldrei hvað karlinn tekur.