Kenningin fallvalta hreina

Kvöldið eftir að ég svaf í bíl síðastliðna helgi átti ég í rökræðum um listhugtakið í útskriftarveislu í Fossvoginum, eða öllu heldur hélt stúlka nokkur því fram að sá verknaður að nota saur til sköpunar – nánar tiltekið í innsetningar – umræðan barst ekki til annarrar notkunar saurs, svo sem í stað málningar á hreinan arískan striga (þar með verður mér hugsað til Bergs Thorberg sem notar kaffi en gæti allteins notað saur ef hann lyktaði af kaffi án þess það gerði hann að minni listamanni hvað mig varðar) – væri ekki list og ég auðvitað fann mig knúinn til að verja slíkan verknað, ekki síst vegna þess að yrðingin sjálf var gölluð og hefði heldur átt að spyrja að því hvenær saur væri list en ekki hvort hann væri það yfirhöfuð.

Umræðunum lauk þannig að hér um bil allir í veislunni lýstu yfir þeirri eindregnu skoðun, gagnstætt minni eigin, að Arnaldur Indriðason (eftir langan veg rökræðna – ég er ekki að líkja honum við saur) hlyti að vera mesti rithöfundur Íslands af því að óumdeilanlega er hann vinsælastur og gæði listar stæðu þarmeð í órjúfanlegu hlutfalli við þann fjölda fólks sem hún höfðaði til. Betri leið til að afskrifa ljóðið sem listform – og ef út í það er farið nær allar bókmenntir og myndlist – er vandfundin. Fólk virtist heltekið þeirri skoðun að stöðnun væri fín, svo ég hætti þar og fór að rífast um barnaníðinga, enda sérstakt áhugamál hjá mér. Ekki fékk ég betri viðtökur þar.

Í gær las ég upp á ljóðakvöldi og hugsaði allan tímann um það hversu afleitur listamaður ég væri að ná ekki að trekkja að eina einustu gamla kerlingu með gleraugu á stærð við undirskálar og var ánægður að hafa ekki með gullofinni listsköpun minni dregið alla helvítis þjóðina inn á takmarkað rými Næsta bars, því í fjandans bænum: Eina meðalið við svoleiðis hávaða er tónlist. Þess vegna þarf tónlist ekki að staðna þótt hérumbil hver einasta sveit Íslands um þessar mundir sé annað hvort fyllt álfum, krúttum eða krúttálfum, því það er jú bara það sem fólk hefur áhuga á einmitt núna. En kenningin er völt. Hún veltur á því hvort annar hver maður verði búinn að láta klippa sig eins og Arnald fyrir tónleikana 28. júní næstkomandi.

2 thoughts on “Kenningin fallvalta hreina”

  1. Hvaða partí álpaðistu eiginlega í? Vinsælt = gott? Ómægad.
    Saur! Getum við ekki sagt að þetta snúist um samhengi og framandleika fyrirbæranna? – framandgervinguna. Ef saur er færður inn í galleríið, er hann list, sbr. klósettskál Duchamps. En það má deila um það, enda var klósettskálin kaldhæðni og ádeila. Ef við yrkjum ljóð um saur (sem virðist ekki vera óalgengt í dag), sem er myndhverfing eða allegóría um ömmur okkar, er táknmyndin saur orðin hluti listaverks.
    En saur einn og sér í höndum okkar er ekki list – heldur göfugur úrgangur frussandi þarma. Saur á striga og saurskúlptúrar heima hjá okkur er sjúkleiki. Stúlkan getur bara lesið sinn Arnald og makað sínum saur.

  2. Hún var mótfallin því að maka saur. Ég sé samt ekki að mynd máluð með saur sé minna listaverk en mynd máluð með olíulitum, þótt ekki hefði ég hana inni hjá mér.
    Er ekki viss hræsni fólgin í að hafna saur? Það er menningarlegt að vera matgæðingur og allir versla við matvörubúðir og velja sér það sem þá langar í hverju sinni. En afurðin má ekki vera hluti af menningunni, fólki finnst að hún eigi að vera eitthvað annað.
    Það má mála mynd af ávöxtum í skál, svo ég skil ekki hvers vegna það má ekki mála mynd af ávöxtum í skál eftir að búið er að melta þá og skilja frá öll næringarefni. Hvað ef kúkurinn er listilega vel málaður? Stillmynd af kúk á borði – stílæfing #1 eftir Rembrandt yngri? Mynd af Pandóru með öskju sína, rauðfóðraða með silki, í henni liggur kúkur?
    Kúkur er kannski ekki list, en fólk er heldur ekki list, hvað þá ávextir. Samt má gera listaverk sem inniheldur þessa hluti, t.d. efast enginn um listrænt gildi Dostojevskís sem eingöngu skrifaði um fólk. Að vísu eru listaverk sjaldnast gerð úr fólki en hvers vegna það ætti að rýra listina skil ég ekki, og þó eru til skúlptúrar úr mannabeinum. Því þá ekki úr kúk? Tengja hlandgosbrunn á Austurvelli við Bankastræti 0? Ég held það geti haft mikla táknræna merkingu og þarmeð er það list.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *