Þriggja dekkja tal

Púkalandið hjálpaði mér með dekkið eftir vinnu. Ég verðlaunaði hann með því að kaupa Best of Radiohead dvd-diskinn handa sjálfum mér. Minnist á það hér til að ítreka þakkir mínar.

Varadekkið reyndist vera nokkuð stærra en hin, ólíkt því sem við var að búast. Ef eitthvað er finnst mér það í eðlilegri stærð en hin, en gamla dekkið er sem sagt er, totalled. Bráðið gúmmí lá í hrúgum á stæðinu.

Hringdi í Vöku og ég ætti að fá annað dekk á 3000 kall hjá þeim á morgun. Húrra fyrir því.

Hinn hataði

Það sprakk á bílnum við furðulegu framkvæmdirnar við Smáralind í morgun. Eða öllu heldur rifnaði barðinn utan af felgunni án átaks. Mér fannst vegurinn gæti nú ekki verið svona miklu verri en hann leit út fyrir að vera.

Asnalegu breytingarnar á Mjóddinni ollu því að ég þurfti að keyra langtum lengri leið að Olísstöðinni en ég hef hingað til vanist. Þegar þangað var komið dugði tveggja manna átak ekki til að losa boltana af felgunni, svo ég skildi bílinn eftir og gekk yfir planið.

Keypti mér sódavatn og tók yfir á kortinu fyrir strætófargjaldinu. Vagninn kom fljótlega og ég settist inn. Á eftir mér kom hópur af leikskólakrökkum, kyrfilega merktir Kópavogi líkt og bærinn ætti þau. Fóstrurnar töluðu um að „fara til Reykjavíkur“ eins og það væri Narnía. Mjódd er í Reykjavík, sem segir allt sem segja þarf um töfra þess staðar.

Krakkarnir góluðu allan tímann og mér varð ljóst að Guð hatar mig. Samt tókst honum ekki að tefja mig frá vinnu lengur en hálftíma. Láti hann sér það að kenningu verða.