Kópavogur

Áðan var ég staddur á McDonald’s við Smáratorg. Þar sá ég konu hella sér yfir starfsmann vegna þess að hún fékk hamborgarann sinn í venjulega brauðinu á myndinni, en ekki í kornóttu brauði eins og mynd af einhverjum öðrum hamborgara sýndi. Fyrir sumum er ekkert vandamál of lítið.

Á leiðinni heim tók ég eftir því í fyrsta sinn að Kópavogur er líklega skuggalegasti bær á Íslandi. Allar þessar dimmu brýr með húsum ofan á og brúm gegnum húsin með húsum ofan á; eins og litla Tókýó, bara án menningar. Kópavogi hefur gjarnan verið stillt upp sem valkosti við Reykjavík. Ég sé ekki alveg hvernig það getur passað.

Til þess að stilla upp valkostum þurfa hlutirnir að vera sambærilegir. Ef mig langar í hamborgara þá er KFC ekki valkostur, en ef mig langaði í kjúklingaborgara væri McDonald’s valkostur við KFC. Ef ekkert skiptir máli nema nálægð við Faxaflóa þá er Kópavogur vissulega valkostur við Reykjavík, annars ekki. Báðir staðir eru bæir í sama skilningi og appelsínur og bananar eru hvort tveggja ávextir.

En kannski vilja sumir bara búa undir brú eins og hver önnur tröll.