Nýr Garðskáli

Fagni allir góðir menn nýjum Garðskálaþætti í fyrsta tölublaði hinna nýju Tregawatta. Lesið hið stórglæsilega tímarit! Horfið á hinn kynngimagnaða Garðskála! Njótið!

Í öðrum fréttum fékk ég lánaða The Soft Bulletin með The Flaming Lips hjá stóra bróður mínum, sem kann að meta allt sem er fallegt, gott og krúttlegt, enda þótt hann sé vígalegur á að líta. Þetta er plata sem lýsir upp hið myrkasta skammdegi, og jafnfætis því að tilheyra póstrokkbylgjunni sem hófst að nokkru leyti með OK Computer kallast hún á skemmtilega snúllulegan hátt á við rokkóperustælana í Pink Floyd. Ég myndi kalla þá pabba krúttkynslóðarinnar íslensku en ég þori ekki að fullyrða. Afskaplega skemmtilegt, saklaust, fallegt og gott. Gerist krútt! Hlustið á Flaming Lips! Njótið!

Og til að ljúka bloggi dagsins birtist ykkur eftirfarandi tilvitnun í viðtal Tregawattanna við Steinar Braga, ef til vill eins og í draumi. Þó líklega ekki:

EÖN: Eru ljóð einlægari en áður? Persónulegri? Er tími íróníunnar liðinn?

SB:
Það fer fyrir okkur öllum eins og konunni í eldstorminum í Dresden í síðari heimsstyrjöldinni – hún hljóp út úr húsinu sínu en uppgötvaði of seint að gangstéttin var byrjuð að bráðna í hitanum, sökk þá grenjandi ofan í stéttina, lagðist á hliðina og bráðnaði saman við. Tími íróníunnar er rétt að hefjast.

Skilaboð til lesenda

Skylduverk dagsins er að hlusta á etýðu opus 10 nr. 3 í E-dúr eftir Chopin. Lesendur mega ímynda sér að þeir séu staddir einhversstaðar í Evrópu að sötra rauðvín á svölum í volgum vorandvaranum með hálfnakinn elskhuga dormandi á sólstól með tequila sunrise og Blóm hins illa eftir Baudelaire meðan sólin strýkur ykkur um vangana og greddan eykst jafnt og þétt með brjóstaskorunni í miðju sjónsviðinu undan vafasömum blaðsíðum Við sundin blá eftir Tomma Gumm.

En sjálfum nægir mér tónlistin.

Hlustið svo á op. 10 nr. 6 í Es-moll; finnið hvernig hringlandi örvæntingin lýsist upp með örlitlum neista vonar en hrapar svo niður í hina herfilegustu angist. Stundum held ég að ég hefði riðið Chopin hefði ég verið uppi á sama tíma. Svo man ég að mér nægir tónlistin.

Íslenskar kvikmyndir

Þær eru margar hverjar alveg afskaplega leiðinlegar, kjánalegar, illa skrifaðar, illa leiknar og óraunsæar. Skemmtilegar undantekningar frá því eru Sódóma Reykjavík og 101 Reykjavík. Aðrar myndir sem því miður falla að einu eða öllum ofangreindum atriðum eru Englar alheimsins, Dís og nærri því allar myndir gerðar fyrir aldamót.

Ég er að horfa á A Little Trip to Heaven núna. Hún er eitthvað það allra leiðinlegasta sem ég hef horft á lengi. Og ekki nóg með það heldur er hún illa skrifuð, illa leikin, ótrúverðug, kjánaleg og bersýnilega að mestu tekin upp á Íslandi – meira að segja prýðileg tónlist Mugisons virkar hálffáránlega á stemninguna. Á meðan myndin rétt lullar áfram er plottið á slíkri hraðferð að meira að segja Mýrin myndi skammast sín. Það er eitthvað svo hryllilega vandræðalegt við alla framvindu að ég bara veit ekki almennilega hvað ég get sagt.

Nema bara þetta: Ef þið eruð þreytt á að fylgjast með íslenskum fjármálamarkaði þá eru fleiri leiðir til að sjá tugmilljónum sóað í vitleysu. Eitt gott hef ég þó að segja um myndina og það er að allt í henni minnir á Ísland níunda áratugarins. Það er í sjálfu sér afrek sem vert er að nefna.

Tómas Guðmundsson

Ég sé ekki þörfina á að reisa minnisvarða um Tómas Guðmundsson til að stilla upp á áberandi stað í Reykjavík. Ástæðan er fjarska einföld.

1. Það er þegar til lagleg brjóstmynd af Tómasi Guðmundssyni. Lengi vel var hún höfð í Austurstræti eins og viðeigandi þótti, eða þar til borgaryfirvöldum þótti nóg um eftir að ítrekuð skemmdarverk höfðu verið framin á henni.

2. Brjóstmyndin stendur nú í anddyri Aðalsafns Borgarbókasafns Reykjavíkur í Tryggvagötu og nafn skáldsins er letrað í boga utan um stöpulinn. Hundruð manns sjá hana dag hvern svo staðsetningin má teljast ansi áberandi.

Fyrir utan þetta er bara svo margt annað sem skiptir meira máli. Hvað á að gera í samgöngumálum borgarinnar til dæmis? Er ekki kominn tími til að gera eitthvað í stað þess að benda á einhverja aðra meirihluta sem eru ekki starfandi lengur? Kannski sleppa því að skipta um meirihluta í hvert sinn sem oddamaður skreppur á salernið?

Sunnudagur á bókasafni

Upplýsingaborð, 14:30. Undirritaður tekur símann.

„Bókasafnið, góðan dag.“
„Já, sælir. Ég er að leita að Wohltemperiertes Klavier, fúgur og prelúdíur eftir Bach í flutningi Xurs Xurssonar gefnar út af Weihnachtsschweinliches Musikverlag í Berlín 1963. Áttu það? Já og svo vantar mig Noktúrnur Chopins númer 13, 45-7 og 53. Náðirðu þessu?“
„É …“
„Svo vantar mig eftirfarandi sónötur Haydns fyrir víólu í cémoll og físssjarp og píanósónötur í adúr (upptalningu vantar), Carabellina Monstrossitana dugar á víólunni, já og svo bara eitthvað safn af píanósónötum Beethovens. Hvað áttu annars inni af óperum á DVD? Mig vantar Cavalleria Rusticana, helst með Domingo þú veist, heh. Kannski líka Tannhäuser frá Bayreuth 38 og …“
„Þú hefðir kannski áhuga á að skoða í rekkana sjálfur fyrst þú ert á annað borð að koma?“

Anddyri, 15:55. Eldri maður stikar að borðinu með bók í annarri hendi.
„Hvað kostar þessi bók?“
„Hundrað krónur.“
„Aha, lof mér að finna þetta hérna. Mig langar í hana af því frændi minn skrifaði hana.“
„En huggulegt.“
„Já og ekki nóg með það, heldur ólst ég að hluta upp í henni þarna sveitinni.“
„Gaman að hey …“
„Áður en þeir tróðu upp eiturefnaverksmiðju þarna.“
„Já þú segir þa …“
„Þeir eru útvaldir, þeir sem fá að drekka með þessum barónahelvítum sem seldu gulltennur úr gyðingum“
„ … “
„Ég hef verið á þínum aldri þegar ég sá það. Tugþúsundir gyðinga. Þetta er fyrst að koma upp á yfirborðið núna, gyðingagullið. Og þessir jakkafataklæddu morðingjar og þeirra eimyrjuspúandi skrímsli suður með sjó! Ég sá þetta allt, ég skal segja þér það! Þetta eru GLÆPAMENN sem stýra þessu landi, þeir eru …“

Sný mér við með hundraðkallinn á lofti.

„Takk fyrir, vertu blessaður.“

Tindersticks

StaplesTindersticks voru fáránlega töff í gær. Fáránlega töff segi ég. Fáránlega. Stuart Staples var merkilega prúður milli átakanna sem hann lagði í hvert lag. Krúttlegt bros. Sá hann alltaf fyrir mér sem meira hörkutól. Þarf að fara að kíkja á nýju plötuna. Fannst ég skynja svipuð þemu þarna í gær en Curtains verður þó alltaf biblía barrómantíkera. Kaupið hana.

Í öðrum fréttum á ég núna flugmiða. 29 dagar.

Kvöldvakt í Árbænum og svo fimmtugsafmæli. Spookeh. Ég ætla að leyfa mér að verða fullur. Skil ekkert í að bjóða upp á áfengi ef afleiðingarnar þykja óæskilegar. Kallið mig óþroskaðan en mér finnst bara svo gaman að verða mér til skammar.