Glitnir

Þegar ég var í Jyväskylä núna í október rak ég augun í Glitnisskilti við stigagang að skrifstofuhúsnæði. Dyrnar voru læstar og þegar ég kannaði dyrabjöllurnar sá ég engin ummerki þess að Glitnir hefði nokkru sinni starfað í húsinu, önnur en skiltið. Mikið hafa þeir verið fljótir að pakka saman.
Þegar ég var þar síðast fyrir tæpum þremur árum varð ég hinsvegar ekki var við ein einustu ummerki um nokkurs konar íslenska starfsemi. Þá höfðu þeir Finnar sem ég hitti líka langtum meiri áhuga á tungumálinu, kúltúrnum og íslenskri tónlist. Hvort það væri satt að Íslendingar drykkju meira en Finnar, það væri ótrúlegt að málin væru ekki skyld því íslenska væri í raun auðskiljanleg, hvort segja mætti að tónlist Bjarkar ætti samhljóm með íslensku hugarfari almennt.
Núna höfðu flestir áhuga á íslenska hruninu. Einum fannst við eiga þetta skilið. En auðvitað eiga ekki nema örfá okkar þetta skilið. Flestir voru skilningsríkir, sögðu mér að hafa ekki áhyggjur, Finnar hefðu verið þarna 1991, verið skammt undan klóm IMF komnir en bjargast. Þegar þeim varð ljóst að skuldir okkar banka nema ekki 7% landsframleiðslu eins og í Finnlandi forðum, meira svona 600-700% fékk ég jafnan svarið: Ó, eruð þið þá ekki fokkd?
Sem sérlega heiðarlegur fulltrúi lands og þjóðar var mér ekki stætt á að svara því neitandi.

Hakkebuff

Ingibjörg Sólrún sér ekkert athugavert við skilmála IMF. Heldur ekki Seðlabankinn. Sem þýðir að annað hvort skilja þau ekki skilmálana eða þau eru að ljúga. Björgvin G. neitar að tjá sig um skilmálana. Þau neita öll að tjá sig um skilmálana. Annað hvort er þetta alltsaman svona frábært að við komum til með að skíta kandífloss og einhyrningar skeina okkur, eða þá að við erum raunverulega það fokkd að ráðamenn vilja vera komnir í öruggt skjól þegar hausar fara að fljúga.

Það er snjór úti einsog til þess eins að minna mig á viss leiðinleg hugrenningatengsl, og kalt vatn er skyndilega orðið munaðarvara á þessum heimili; sjálfsagt allt frosið í lögnunum því meira að segja klósettið virkar ekki (hvar eru einhyrningarnir?). Kaffið mitt mallar því úr kýsilangandi íslensku heitavatni.

IMF fara að krúttast hingað bráðum að slá okkur létt á kollinn með töfrasprotanum sem breytir Íslandi í Nautnaeyju Gosa. Eina verðið fyrir krásirnar, vindlana og ölið er að við breytumst í asna á miðnætti og verðum seld í hakkebuff fyrir slikk einhversstaðar þar sem eftirspurn er eftir hakkebuffi. Því þannig virkar kapítalisminn og hin „heilbrigða græðgi“. Eða hafiði kannski aldrei séð Gosa?

Annars mæli ég með því að þið lesið Surt, vin minn. Hann er þó ekki kominn til að brenna heiminn, því heimurinn logar þegar. En það eru mikilvægar spurningar sem brenna á honum. Lesið líka Ingólf og Eirík.