Varúð – tenglafjöld

Harpa Jónsdóttir, sem skrifaði svo fallega um bókina mína í hittífyrra, á enn inni þakklæti mitt. Núna hefur hún búið til skólaverkefni um Póstkort í vesturbæinn úr sömu bók – aðgengilegt á vef Námsgagnastofnunar tileinkuðum Degi íslenskrar tungu. Verð að játa að það er skrýtið að sjá sjálfan sig á svona verkefnablaði. Hafi hún enn á ný bestu þakkir fyrir að koma mér á framfæri.

Annars er afskaplega auðvelt að verða reiður þessa dagana, pirraður eða vonsvikinn, og ekki bætir myrkrið úr skák. Ef ég kveiki loftljósið inni hjá mér fer öryggið af íbúðinni þannig að ég verð að láta mér nægja lampa – og flíspeysu þegar vindurinn gengur á að austan. Ekki að það sé upphaf eða endir á neinu volæði, það tekur því ekki einu sinni að kvarta. En þegar hlutirnir eru einsog þeir eru finnur maður meira hvað það er sem mann vantar (lesist: langar í) en hvað maður hefur. Og ég held í grunninn að það sem mig vanti (langar í) sé minna borgarlandslag. Ég held mig langi að taka mér langt frí.

Eigendum sumarbústaða utan almennra sumarbústaðabyggða tilkynnist því hérmeð að mig er að finna í símaskránni, vilji þeir lána mér bústaði sína án þóknunar.