Af daglegu stöffi

Ég fór með tölvuna í viðgerð í gær og fékk hana aftur samdægurs. Hún hafði verið að ofhitna einsog Ödipus og bræða utanaf sér húðina að neðan. Um miðjan dag fékk ég símtal frá EJS: Áttu kött? Það er heilt teppi hérna inni.

Á dauða mínum átti ég von. En tölvan er einsog ný núna.

Á morgun fer ég í rannsókn á „áhrifum oflipurðar á stoðkerfiseinkenni hjá íslenskum ungmennum með sérstöku tilliti til íþróttaiðkunar og meiðsla.“ Um rannsóknina segir í bréfi sem ég fékk:

Við undirrituð stöndum fyrir rannsókn á því hvort slök liðbönd og mikill hreyfanleiki í liðum (oflipurð) geti orsakað stoðkerfisverki eða aukið hættu á íþróttameiðslum hjá ungu fólki.

Verandi náungi með oflipur liðamót vona ég að þetta svari einhverjum spurningum, t.d. um krampaköst í liðum og önnur eymsl sem ég hef fundið fyrir óreglulega undanfarin ár.

Á morgun má ég einnig eiga von á sekt í pósti fyrir að trassa að láta skoða bílinn minn. Það gerði ég vegna þess að ég hef einfaldlega ekki haft efni á að láta lagfæra þetta smáræði sem er að honum. Auðvitað lendir þetta meira á láglaunafólki en öðrum, og þeim sem áttu enga peninga til að byrja með. Það er til staður og stund til að kreista peninga útúr fólki, en ekki núna.

Musteri hæverskunnar

Ég hvet lesendur eindregið til að hlusta á þennan merkilega hlaðvarpsþátt. Mér þykir ég raunar alveg skelfilega illa reprisenteraður, nýt nær engrar athygli þáttastjórnenda meðan Loðmfjörð, Guttesen, Norðdahl og Lilliendahl þiggja meiriháttar hýðingar. Í öllu falli hlýt ég að krefjast þess að fá meiri dagskrártíma síðarmeir.

Að því sögðu vil ég biðja þær tvær manneskjur sem keyptu Endurómun upphafsins á síðasta ári – á sama tíma og ég þakka fyrir tvöþúsundkallinn – vinsamlegast að yfirgefa maka sína, krjúpa frammi fyrir altari hæversku minnar og iðrast kaupa sinna. Bókin seldist svo illa síðasta árið að hún hefur nú verið fjarlægð úr búðum með öllu. Þær neita að höndla hana. Og það er ævarandi ljóður á ráði fólks að hafa keypt slíka bók.

Ég á kannski 70 stykki eftir af henni. Hvort ætti maður þá að semja uppá nýtt um dreifingu á henni – í von um að grunlausar sálir séu enn til sem vilji kaupa hana fullu verði – eða hreinlega gefa pdf-ið á netinu?

Hræið

Nei heyrið mig nú! Það er víst búið að finna og ídentífíkera hræið af henni Anastasíu minni. Og það fyrir tæpu ári. Mun nú vera búið að sameina Romanovfjölskylduna alla í sameiginlegum grafreit.

Ég er sjokkeraður yfir að hafa fyrst komist að þessu núna. Ekki fannst íslensku miðlunum þess virði að færa mér þessar fréttir fyrst enn var hægt að fjalla um handarkrika Jennifer Lopez – myndir!

En fyrst þetta er komið fram í dagsljósið hlýtur krafan um endurgerð þessarar myndar brátt að enduróma um gervalla byggða veröld. Það er náttúrlega glæpur að gera eins- og hálfstíma langa mynd sem er jafn leiðinleg. Ég vænti þess því að nýja gerðin verði aðeins kortér að lengd, það er að byltingin verði sýnd framað þeim punkti þegar hausinn er skotinn af stelpunni. Svo rúlli kreditlistinn.

Það væri ólíkt skemmtilegra áhorfs. Og nær sannleikanum.

Með fullri virðingu og allt það.

Birtan

Vorið er að koma. Söngur farfuglanna í trjánum fyrir utan blandast hljóðinu í bráðnandi gúmmíi ökuþóra hér um hálfeittleytið að nóttu. Margt brosir líka við mér núna sem mér hefði aldrei áður dottið í hug að ég ætti eftir að fagna. Vinnan mín er frábær, kærastan mín er best í heimi og kvöldin fara ekki til spillis þó ég sé hérumbil hættur að hitta fólk (note to self …)

Að sama skapi er ýmislegt sem sligar mig dagsdaglega, til dæmis dugir launatékkinn skemur og skemur út hvern mánuð, og ég veit ekki hvar ég fæ bensín á bílinn á morgun (undarleg hugmynd að leggja til peninga til þess eins að geta unnið sér inn peninga). En ef ekki væri fyrir slík lúxusvandamál gæti ég með fullri vissu sagt að ég gæti ekki kvartað undan nokkrum einasta hlut.

Kvöld eftir kvöld hef ég nú á sjöundu viku fyllst æ meiri hluttekningu með viðfangsefni mínu – og þá tala ég um rannsóknina mína – og er fyrir margt löngu farinn að skynja hyldýpið stara, ef ekki kalla, á móti þessari rýni minni. Ég á fátt annað eftir en æpa Þórbergur! í rúminu. En hvaða tilfinningu eiga menn svosem að fá fyrir viðfangsefnum sínum ef þeir samlagast þeim ekki að einhverju leyti.

Víga-Styrssaga

Ég vil benda á það litla atriði, sbr. þessi frétt, að berserkjavígunum er bæði lýst í Víga-Styrssögu, og þarmeð Heiðarvígasögu, og Eyrbyggju. Það bætir ekki fyrir þau mistök að gefa rangt fyrir Víga-Styrssögu, en svar Kópavogsliðsins var engu að síður rétt líka.

Réttlætingin er þá væntanlega sú að Víga-Styrssaga hafi ekki verið sagan sem leitað var eftir þótt svarið væri vissulega rétt? Minnir óneitanlega á það sem haft var eftir Kiljan: Enda ekki allar Íslendingasögur á því að Njáll er brenndur? En spurningahöfundar þurfa auðvitað að passa sig á að klúðra ekki svona. Næst verður kannski spurt í hvaða Íslendingasögu Snorri goði gegni veigamiklu hlutverki. Eina rétta svarið við því er: Alveg lygilega mörgum!

Barið uppundir gólfin

Ég sat að semja við píanóið þegar skyndilega riðu þung högg uppum gólfið allt. Ég hélt áfram, nágranninn gæti bara vel fellt sig við óhjákvæmilegu falsnóturnar. En mannfjandinn hélt bara áfram að lemja svo ég neyddist til að hætta. Og ég sem var kominn svo nálægt því sem ég vildi.

Það er kortér síðan og ennþá lemur hann við og við, reyndar í veggina, með einhverju þungu. Kannski mannslíki. Ég skal ekki segja. Hitt veit ég þó að ég er uggandi um að nábúinn nýi sé ekki allur þar sem hann er séður. Sem er nokkuð skuggalegt því ég hef aldrei séð hann.

En ef hann var ekki að kvarta undan ómstríðunni minni? Neyðist maður þá ekki til að spyrja hvað hann sé að byggja þarna?

Að gefnu tilefni

Í gær sat ég á kaffihúsi og fylgdist með stórbruna í Síðumúla. Og ég sem ætlaði Fellsmúlann. Á leiðinni heim keyrði ég framá krambúleraðan jeppa sem leit helst út fyrir að hafa verið tekinn sundur með sprengjuvörpu. Síðdegis í dag var svo búið að strá löggum eftir endilangri Reykjanesbrautinni. Og ég með endurskoðunarmiða.

Að gefnu tilefni vil ég því beina því til íbúa á Höfuðborgarsvæðinu að valda ekki frekari skemmdum þar sem ég á leið um. Hættið að kveikja í tjörupappa, flýja lögguna og klessa skrímslin ykkar á brúarstólpum. Það truflar daginn minn.

Umsvif mín markast af Reykjavík og nærsvæðum hennar. Vinsamlegast virðið takmörkin.

Síðasti ritdómur Sjóns

Jón Örn kemur með góða ábendingu á bloggsíðunni sinni: Síðasta ljóðabók Sjóns er ekki skrifuð af mönnum sem kunna skil á ritverki Sjóns eða hafa stúderað hann á nokkurn einasta hátt, utan að hafa gripið niður í ljóðasafn hans.

Samt hafa allir skirrast undan að fjalla um hana – á þeim forsendum að þeir þekki einfaldlega ekki nógu vel til Sjóns. Jón Örn bætir við:

Ég efast um að gagnrýnendur neiti að dæma bækur Sjóns því þeir þekki ekki verk hans nægilega vel. Spurningin sem ég hef er því afskaplega einföld og barnaleg. Verður textaendurvinnsla aldrei neitt annað en framlenging á verkunum sem hún hrærir í? Verður síðasta ljóðabók Sjóns aldrei neitt meira en línur eftir Sjón sem við stálum? Las einhver ljod.is vandlega yfir þegar bók Eiríks Blandarabrandarar var gagnrýnd? Eða þora gagnrýnendur ekki að stuða Sjón? Að þeir gagnrýni eitthvað sem hann gæti skilgreint sem bögg á sig? Að þeir gagnrýni endurvinnslutexta og opinbera óvart vankunnáttu sína – verði að athlægi í næsta bókmenntaelítuskralli og Sjón skvettir sýru í andlitið á þeim?

Þetta er svo vel að orði komist að ég á bágt með að bæta nokkru við það. En leyfi mér þó að segja að það er í meira lagi vafasamt að víkja sér undan því að ritdæma bók á þeim forsendum að maður þekki ekki einhverja aðra bók. Verður verkið þá aldrei nógu gott eitt og sér, aldrei sjálfu sér nægt, eða einsog Jón segir: Verður það aldrei neitt meira en línur sem við stálum? Verður leitin að greiningunni aldrei neitt annað en grúsk eftir vísunum?

Nei, herra minn trúr! Ég get ekki ritdæmt bækur eftir Ingibjörgu Haralds, ég hef ekki lesið Sigfús Daðason! Ég óttast á honum yfirskeggið, og máske að ég skilji ekkert hvað hann er að segja, hvað þá heldur hvað Ingibjörg segir.

Eða einsog ritdómari einn sagði um bók eftir Þorstein frá Hamri: Hún hlýtur að vera góð því ég skil hana ekki.

Sá sem óttast Sigurð Pálsson hefur greinilega ekki lesið Éluard, Baudelaire eða Préverte. Nei, þetta er barnalegt. Ef fólk er svona hrætt við Sjón – hvað þá heldur vísanir í hann – þá hlýtur að fara að líða að því að fólk þori ekki að skrifa um bækurnar hans heldur. Nema kannski með Hugtök og heiti í bókmenntafræði við hendina, og einhverja franska gárunga af handahófi uppúr Sporum í bókmenntafræði 20. aldar, til að dylja þá meinleysu að það skilur ekki verk hans og verður af þeim sökum kannski rassskellt á næsta málþingi.

Og þá þykir mér skjóta helvíti skökku við að hafa skyndilega ekki lesið Sjón þegar kemur að því að ritdæma bók sem er ekki einu sinni eftir hann. Nema fólk sé svona áfjáð í að henda allar vísanir á lofti til að sýna eilífa og óhagganlega visku sína, og mátt yfir bókmenntunum. En bara geti það ekki.