Barið uppundir gólfin

Ég sat að semja við píanóið þegar skyndilega riðu þung högg uppum gólfið allt. Ég hélt áfram, nágranninn gæti bara vel fellt sig við óhjákvæmilegu falsnóturnar. En mannfjandinn hélt bara áfram að lemja svo ég neyddist til að hætta. Og ég sem var kominn svo nálægt því sem ég vildi.

Það er kortér síðan og ennþá lemur hann við og við, reyndar í veggina, með einhverju þungu. Kannski mannslíki. Ég skal ekki segja. Hitt veit ég þó að ég er uggandi um að nábúinn nýi sé ekki allur þar sem hann er séður. Sem er nokkuð skuggalegt því ég hef aldrei séð hann.

En ef hann var ekki að kvarta undan ómstríðunni minni? Neyðist maður þá ekki til að spyrja hvað hann sé að byggja þarna?