Síðasti ritdómur Sjóns

Jón Örn kemur með góða ábendingu á bloggsíðunni sinni: Síðasta ljóðabók Sjóns er ekki skrifuð af mönnum sem kunna skil á ritverki Sjóns eða hafa stúderað hann á nokkurn einasta hátt, utan að hafa gripið niður í ljóðasafn hans.

Samt hafa allir skirrast undan að fjalla um hana – á þeim forsendum að þeir þekki einfaldlega ekki nógu vel til Sjóns. Jón Örn bætir við:

Ég efast um að gagnrýnendur neiti að dæma bækur Sjóns því þeir þekki ekki verk hans nægilega vel. Spurningin sem ég hef er því afskaplega einföld og barnaleg. Verður textaendurvinnsla aldrei neitt annað en framlenging á verkunum sem hún hrærir í? Verður síðasta ljóðabók Sjóns aldrei neitt meira en línur eftir Sjón sem við stálum? Las einhver ljod.is vandlega yfir þegar bók Eiríks Blandarabrandarar var gagnrýnd? Eða þora gagnrýnendur ekki að stuða Sjón? Að þeir gagnrýni eitthvað sem hann gæti skilgreint sem bögg á sig? Að þeir gagnrýni endurvinnslutexta og opinbera óvart vankunnáttu sína – verði að athlægi í næsta bókmenntaelítuskralli og Sjón skvettir sýru í andlitið á þeim?

Þetta er svo vel að orði komist að ég á bágt með að bæta nokkru við það. En leyfi mér þó að segja að það er í meira lagi vafasamt að víkja sér undan því að ritdæma bók á þeim forsendum að maður þekki ekki einhverja aðra bók. Verður verkið þá aldrei nógu gott eitt og sér, aldrei sjálfu sér nægt, eða einsog Jón segir: Verður það aldrei neitt meira en línur sem við stálum? Verður leitin að greiningunni aldrei neitt annað en grúsk eftir vísunum?

Nei, herra minn trúr! Ég get ekki ritdæmt bækur eftir Ingibjörgu Haralds, ég hef ekki lesið Sigfús Daðason! Ég óttast á honum yfirskeggið, og máske að ég skilji ekkert hvað hann er að segja, hvað þá heldur hvað Ingibjörg segir.

Eða einsog ritdómari einn sagði um bók eftir Þorstein frá Hamri: Hún hlýtur að vera góð því ég skil hana ekki.

Sá sem óttast Sigurð Pálsson hefur greinilega ekki lesið Éluard, Baudelaire eða Préverte. Nei, þetta er barnalegt. Ef fólk er svona hrætt við Sjón – hvað þá heldur vísanir í hann – þá hlýtur að fara að líða að því að fólk þori ekki að skrifa um bækurnar hans heldur. Nema kannski með Hugtök og heiti í bókmenntafræði við hendina, og einhverja franska gárunga af handahófi uppúr Sporum í bókmenntafræði 20. aldar, til að dylja þá meinleysu að það skilur ekki verk hans og verður af þeim sökum kannski rassskellt á næsta málþingi.

Og þá þykir mér skjóta helvíti skökku við að hafa skyndilega ekki lesið Sjón þegar kemur að því að ritdæma bók sem er ekki einu sinni eftir hann. Nema fólk sé svona áfjáð í að henda allar vísanir á lofti til að sýna eilífa og óhagganlega visku sína, og mátt yfir bókmenntunum. En bara geti það ekki.

One thought on “Síðasti ritdómur Sjóns”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *