Skýrsla

Einsog þessu bloggi hefur aldrei verið ætlað að vera nein skýrsla um eitt eða neitt þá finnst mér ég ekki geta látið undir höfuð leggjast að segja frá rannsókninni sem ég minntist á í gær. Í stuttu máli sagt mældist ekki oflipurð í stökum liðamótum á mér. Skilgreiningin hlýtur þá að ná útfyrir nokkuð sem ég hef orðið vitni að nema í sirkus. En í öllu falli er oflipurð ekki skýring á krampaköstunum mínum.

Í öðrum fréttum er fátt markvert.

Enn af Þórbergi

Ég held stundum að ég sé að verða ruglaður. Ég er með 53 blaðsíður af tilvitnunum í heimildir. Svo þegar ég renni yfir skjalið sé ég að það vantar fullt af heimildum þar inn sem ég þó hef farið ítarlega yfir. Hvers vegna skrifaði ég ekkert niður? Las ég þær kannski aldrei? Er ég eitthvað skrýtinn?

Hvert einasta orð sem ég les um Þórberg finnst mér ég hafa lesið margoft áður. Ég er líkast til kominn á stig alkjalfróðleiks um manninn – sem er næsta við fræðilegt nirvana utan að hafa gefið út bók um efnið.

Árið 1972 heimsótti Þórbergur Hala í Suðursveit hinsta sinni. Hann var þá þjáður allillilega af parkinsonsveiki og skynjaði vitjunartíma sinn, að líklega sæi hann aldrei aftur sveitina sína. Svo hann neitaði að fara. Margrét kona hans reyndi að tala hann til en þegar ekkert gekk var hann á endanum borinn út og settur grenjandi um borð í flugvél til Reykjavíkur. Segir Halldór Guðmundsson.

Mér finnst það svo andstyggilegt að ég á ekki orð til að lýsa því.

Hann lést 1974. Sama ár og zetan – helsta tákn mosagróinna moggaskríbenta – var afnumin. Eða var það 1973? Í öllu falli er hún jafn úreld og helvítis flokkurinn þeirra.