Århus

Skrifað í Leifsstöð kl. fimm að morgni þess fimmtánda:

Leifsstöð, eini staður á Íslandi þarsem enginn er alkóhólisti. Hér drekka allir klukkan fimm á morgnana án þess að nokkur þyki þeir verri. En utan Leifsstöðvar eru allir alkóhólistar, jafnvel þeir sem aldrei hafa drukkið.

Ég veit ekki hvort það er svefnleysið mín megin eða andleysið í sófunum aftanvið mig en mér finnst ég vera kominn vel á veg með að fá raðheilablóðfall. Einhverjir snillingar á leiðinni á Hróarskeldu. Töluðu í fimm mínútur um pantverð á dósum og flöskum. Guð minn góður.

Mér finnst ég vera nokkuð oft hérna, einhverra hluta vegna. Ég var síðast hér í janúar, þaráður í október, þará undan í júlí. Og það verður bara að segjast að ég er orðinn nokkuð þreyttur á vistinni hérna í Leifsstöð. Það er ekki sama stemningin sem var.

Samt er þetta besta flugstöð í Evrópu á eftir Vantaaflugvelli í Finnlandi. Það segir að vísu meira um hinar flugstöðvarnar en þessar tvær. Þetta eru líka einu tvær flugstöðvarnar sem hafa reykingasvæði. En það segir líklega meira um mig en flugstöðvarnar.

En nú er ég semsé kominn til Árósa. Hélt að lestarferðinni ætlaði aldrei að ljúka. Hún tók þrjá og hálfan tíma, og það eftir svefnlausa nótt, þriggja tíma flug og klukkutímabið niðri á lestarpalli vegna þess að ég missti af fyrstu lestinni. Eini kosturinn var að ég þurfti ekki að skipta um lest. Það leiðinlegasta sem ég veit er að skipta um lest.

Það er gasalega fallegt hérna. Fór í dag og skoðaði Den Gamle By sem er einskonar Árbæjarsafn þeirra Árósarbúa. Þar safna þeir saman gömlum húsum hvaðanæfa að í Danmörku sem annars hefðu verið rifin, þarmeðtalið eitt feiknarstórt frá Kaupmannahöfn. Það elsta sem ég man eftir er frá 1700 og eitthvað.

Það fylgdi öskubakki með herberginu mínu og það hlýtur að vera stærsti kosturinn við að nema í Danmörku. Úti í Fakta kostar ódýrasti bjórinn, sem heitir Dansk Pilsner og er vel að merkja ágætur, aðeins 5 krónur per 50 cl. dós. Svo ég er ansi vel settur. Keypti inn morgunmatarbirgðir til að endast út vikuna, plús pylsupakka, sinnepsflösku og tvær dósir af ofangreindu. Kostaði ekki nema tvöþúsundkall. Svo það er ekkert kreppuvæl á þessum bæ.

Að vísu keypti ég mér bjór í miðbænum í dag sem kostaði tæpan þúsundkall – með stúdentaafslætti. En það geri ég ekki aftur.

Mikið djöfull er fínt að vera hérna. Allt námsefni er að vísu á ensku sem er algert eip.

Ég afsaka fábreytnina í þessum texta og hve óskáldlegur hann er. Þetta er bara skýrsla. Þið getið vænst frekari útlistana af þessu tagi á þessum síðum næstu tæpu tvær vikurnar, því í fábreytni Árósaraftansins mun ég talsvert dveljast við tölvuna milli þess sem ég les forna texta. En hér lýkur skýrslunni í bili.

4 thoughts on “Århus”

  1. Ef þú vilt fá eitthvað af minni reynslu þá er hægt að fara í fellilista á síðunni minni og velja sumarskóli 2007. Mínar þarfir hafa þó væntanlega verið ólíkar þínum. Hvar ertu annars staðsettur í borginni?

  2. Ég var einmitt á þeim vegi og Vericenter þarna hinu megin, undirgöngin besta leiðin. Ætli þetta sé ekki það sama? Skemmtileg skógarganga yfir í skólann.

  3. Þetta er allt það sama. Það er líka fólk hérna sem ég las um í ferðasögunni þinni, t.d. Reynhildur. Eflaust kannastu við aðra stúdenta hér, Bergdísi, Mathias og Søren svo einhverjir séu nefndir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *