Fimmta alþjóðlega ljóðahátíð Nýhils

Nú í kvöld var fimmtu alþjóðlegu ljóðahátíð Nýhils þjófstartað með koverljóðakvöldi á Grand rokk. Á morgun verður hátíðin hinsvegar formlega sett í Norræna húsinu við hátíðlega athöfn klukkan fimm og um kvöldið klukkan níu verða sýnd myndljóð. Á föstudags- og laugardagskvöld verða upplestrar. Nánari upplýsingar um hvar og hvenær og hverjir lesa og hvaðeina fást hér. Sjálfur mun ég lesa efni af ýmsum toga úr væntanlegri bók.

Í tengslum við hátíðina er komið út sérstakt hátíðarhefti Tíuþúsund tregawatta í ritstjórn Hauks Más Helgasonar og Bryndísar Björgvinsdóttur. Þar í eru til að mynda ljóð og þýðingar á ljóðum eftir hátíðarskáldin. Einnig er komin út fimmta afbók Nýhils, Af steypu, í ritstjórn Kára Páls Óskarssonar og Eiríks Arnar Norðdahl. Einsog titillinn gefur til kynna er efni bókarinnar, greinar og ljóð og jafnvel ýmislegt annað, helgað konkretljóðlist. Þar í á ég sjálfur tvær þýðingar á greinum eftir Eugen Gomringer, svo ég haldi því til haga að þetta blogg fjallar fyrst og síðast um sjálfan mig.

Allir eru að sjálfsögðu velkomnir á hátíðina og mæli ég sterklega bæði með hinu sérlega hátíðarhefti Tregawattanna og Af steypu fyrir alla bók-, og kannski ekki síst, ljóðhneigða menn og konur. Ég veit ekki hvað þetta kemur til með að kosta en miðað við alla þá vinnu sem lögð var í hvorttveggja væri hérumbil hvaða prís hóflegur. Venju samkvæmt verða aðrar bækur skáldanna til sölu á upplestrarkvöldunum tveim, sem verða haldin í Tryggvagötu 11 (áður kosningamiðstöð VG). Og við ljóðabangsarnir hlökkum að sjálfsögðu til að sjá ykkur öll.