Kenningar Einars Pálssonar

Ég hef oft staldrað við bækur Einars Pálssonar um íslenskt þjóðveldi og goðafræði á bókasafninu, velt fyrir mér hvers vegna enginn talaði um þær í íslenskuskor en aldrei árætt að lesa neina þeirra. Þær eru svo margar, efni þeirra svo fjölbreytt (að því er virtist) og titlarnir gáfu ekki beinlínis miklar vísbendingar um innihaldið.

Svo í dag rakst ég á wikipediugrein um Einar Pálsson og sé núna hvers vegna þessar ellefu eða svo bækur eru ekki lesnar spjaldanna á milli við íslenskuskor.

Íslenska goðaveldið í heiðni (930-1000) var hugsað sem endurspeglun himneskrar reglu. Þannig mátti líta á goðana 36 sem fulltrúa himinhrings, og til samans jafngiltu þeir konungi í goðfræðilegum skilningi. Einar taldi að goðarnir hefðu búið yfir hinni goðfræðilegu þekkingu sem fylgdi goðsagnalandslaginu. Einar gerði ennfremur ráð fyrir að germönsk heiðni hefði, líkt og önnur nálæg trúarbrögð, orðið fyrir áhrifum af speki pýþagóringa og platonista um að eðli heimsins, og þar með hins goðlæga hluta hans, væri fólgið í tölum og hlutföllum. Hann hélt því fram að þessi speki hefði legið að baki íslenska goðaveldinu og konungdæmum grannlandanna.

Gallinn við öll svona samanburðarfræði ætti flestum að vera augljós: ef íslenska goðaveldið var hugsað svona, hvar eru þá íslensku heimildirnar fyrir því? Þær eru nefnilega ekki til. Einar gaf sér einfaldlega, útfrá samanburði við samgermanskan menningararf og reyndar allt til Grikklands, að tilteknar hugmyndir – tiltekin heimsmynd – hefði erfst svo að segja óbreytt gegnum aldirnar þjóða á milli. Skoðum þetta nánar:

Mælingakenning Einars var tilraun hans til að sameina (a) það sem vitað er um norræna heiðni; (b) það sem álykta má af sambærilegum heimildum um forn trúarbrögð indó-evrópskra manna; (c) það sem vitað er um stjarnfræðikunnáttu fornþjóða og (d) þá innsýn í norræna goðafræði sem fæst með því að horfa á Íslendingasögurnar sem goðsagnir.

Atriði a) er einmitt það sem við skoðum sérstaklega við íslenskuskor – þær varðveittu heimildir sem til eru um norræna heiðni og hvað þær segja okkur. Rannsóknir á því sviði eru margvíslegar og fjölbreyttar. Atriði b) er svo eitthvað sem mér liggur við að segja að sé út í hött að bera saman við atriði a) til þess að öðlast betri skilning á því síðarnefnda. Það skiptir engu máli fyrir norræna goðafræði hverju var trúað austan við Kákasus fyrir meira en 5000 árum. Ekki frekar en Gilgameskviða segir okkur nokkuð um Snorra-Eddu. Það væri eðlilegt fyrir strúktúralíska rannsókn að setja upp töflu yfir lögmál goðsagna – einsog hefur verið gert – til að benda á að allar goðsagnir fylgi svipuðu mynstri, búi við svipaðar reglur og eigi sér jafnvel einhverja grunnfyrirmynd sem nú er glötuð. En það segir ekki endilega mikið um trú fólks á Íslandi á landnámsöld.

Sama gildir um atriði c), það einfaldlega gagnast okkur takmarkað að velta fyrir okkur stjarnfræðiþekkingu Súmera, Grikkja eða Rómverja í fornöld í því augamiði að varpa ljósi á íslenska menningu á miðöldum. Þar sem vantar heimildir má gera ráð fyrir ýmsu, það má til dæmis gera ráð fyrir að Snorri Sturluson hafi þekkt Gesta Danorum eftir Saxo Grammaticus þótt það standi hvergi. En við getum fjandakornið ekki haldið því fram að vegna stjarnfræðiþekkingar fornþjóða hafi sögusvið Íslendingasagna átt að:

endurspegla himneska reglu og vera jafnframt tímakvarði. Einfaldasta leiðin til þess er að hugsa sér miðju og taka þaðan mið af stjarnfræðilega marktækum punktum á sjóndeildarhring, s.s. höfuðáttum og sólarupprás og sólarlagi um sólstöður. Kennileiti á jörðu niðri sem tengjast þessum stefnum fá þannig goðfræðilega merkingu. Einar gerði ekki aðeins ráð fyrir goðsagnalandslagi af þessu tagi, heldur áleit að stærð þess hafi verið nákvæmlega skilgreind og útmæld. Hann áleit að fornmenn hafi hugsað sér það sem hring sem endurspeglaði sjóndeildarhring og himinhring (dýrahringinn). Þvermál hringsins skipti máli og átti að hafa verið 216.000 fet (um 64 km)

Hvað atriði d) varðar þá sé ég ekki samhengið milli þess að líta á Íslendingasagnir sem goðsagnir – sem þær klárlega eru – og að það segi okkur eitthvað um aðra texta sem bera í sér lítinn skyldleika við hina.

Ég tek fram að ég hef ekki lesið bækur Einars Pálssonar og að það er áreiðanlega margt áhugavert í þeim sem jafnvel gæti skipt máli fyrir íslensk og norræn fræði. En miðað við þessa litlu stikkprufu þá virðist mér afskaplega lítið vera af haldbærum gögnum rökstuddum viðunandi heimildum. Þetta eru bara hugmyndir einsog hver sem er gæti fengið og erfitt eða ómögulegt er að sanna eða afsanna. Og slíkar kenningar bera í sér lítið fræðilegt gildi.

Hjá tannlækninum

Ég hef átt það til að fara til tannlæknis síðastliðið ár.

Maður liggur þarna gersamlega varnarlaus í stólnum meðan tannlæknirinn er í keppni við sjálfan sig um hversu mörgum hlutum hann getur troðið upp í mann. Svo getur maður hlustað á útvarpið meðan blóðsletturnar ganga í flóðbylgjum yfir okkur báða.

Mér hættir aldrei að þykja tækin dálítið miðaldaleg þótt öðru máli gegni um tæknina. Svo er alltaf þarna stykkið sem lítur út einsog langur kveikjari með bláa ljósinu á endanum. Voða StarTreklegt. Hvað skyldi það gera? Ég hef alltaf á tilfinningunni að það geri ekki neitt. Sé bara þarna til að imponera sjúklinginn.

Í dag var ég deyfður í fyrsta sinn í hálfan annan áratug. Og hann deyfði mig svo duglega að ég fann ekki neitt. Gat þó brosað útí annað yfir gosbrunninum sem stóð uppúr mér. Svo var líka Lennon í útvarpinu sem er alltaf skemmtilegt.

Eftir tannlæknatímann fór ég í Bakarameistarann í Glæsibæ, sem er hvorki glæsilegur né þykja mér afurðir bakarans neitt sérlega meistaralegar. Ég keypti mér ciabatta með spægipylsu og allskyns jukki og kaffi með. Ég átti í vandræðum með að koma kaffibollanum uppað vörunum þarsem ég hafði enga tilfinningu í hálfu andlitinu og lék mér svo að því að finna bragðmuninn á samlokunni milli hægri og vinstri hliðar meðan innihaldið lak úr munnvikunum niður á Fréttablaðið mitt.

Á næsta borði sátu tvær konur og barn. Og barnið spurði þær varfærnislega af hverju maðurinn þarna væri svona skrýtinn. Og ég fékk samúðarfyllsta augnaráð sem ég hef fengið frá þeim öllum þarsem ég sat þarna með sósu makaða yfir andlitið og kaffi drjúpandi niður um lama munnvikið.

Og leið dálítið asnalega. Það var líka áður en ég tók eftir því að það blæddi ennþá úr tannholdinu á mér eftir aðfarirnar. Ég mun ekki beinlínis hafa verið frýnilegur. Þegar ég kom í vinnuna snerist þetta svo algerlega við. Þar var hlegið að mér. Mér leið eiginlega betur með það.

Þessi saga kostaði 15.000 krónur. Framlög yfir 500 krónum eru frjáls. Sendist í umslagi á Suðurgötu 78, 220 Hafnarfirði. Nei, ég nota ekki heimabanka. Það er nóg að bankarnir tortími þjóðfélaginu án þess ég hafi þá heim með mér líka.