Fögur er hlíðin

Mig langar til að birta hérna umfjöllun um open mic kvöldið Blame Canada, sem haldið var til heiðurs Angelu Rawlings – fundna hjá Angelu Rawlings, skrifaða af Pétri Blöndal:

Miðnætti á fimmtudegi í miðborginni.
„Þetta er að lognast út af, held ég,“ segir Steinar Bragi.

Nokkrar skáldspírur standa í hnapp fyrir utan Næsta bar, sjálfselskandi ljóðskáld eins og þau kalla sig. Þetta kvöld er Nýhil með „open mic“, þar sem hljóðneminn er opinn öllum. Tilefnið er burtför kanadíska ljóðsprundsins Angelu Rawlings, sem kallar sig a.rawlings á skáldamótum. Hún sérhæfir sig í hljóðljóðum.

– Hvernig eru þau? spyr blaðamaður í einfeldni sinni.

Og svar hennar er óvænt:

„Maður gefur frá sér hljóð.“

– Í bland við ljóð eða hugsanir? spyr blaðamaður forviða.

„Stundum.“

Blaðamaður mjakar sér inn fyrir, rétt í tæka tíð til að heyra síðasta atriði kvöldsins, þar sem fullorðinn karlmaður stendur á miðju gólfi, hefur tekið hljóðnemann traustataki og syngur gamlan smell. Ekki stendur á viðbrögðum. Vinur hans hleypur til hans, faðmar hann og segir: „Ó, þetta var geðveikt!“

a.rawlings flutti ljóð fyrr um kvöldið, þar sem hún var með frönsk tarotspil, hvaða þýðingu sem framandi uppruni spilanna hafði – kannski þá, að hún skildi ekki örlög sín. En hún miðlaði engu að síður tilfinningum sínum yfir misskildum örlögum með hljóðrænum tilþrifum. Kannski var Parísarskáld í salnum, sem skildi frönsk tarotspil, og náði hljóðljóðinu í allri sinni dýpt.

Barþjónarnir hafa hlustað á ljóð allt kvöldið, og einn þeirra er farinn að tala í hljóðum, sem laus eru við ljóð, og hljóða einhvern veginn á þennan veg: „Sjáðu verðið!“

Hann bendir á stórar verðmerkingar á barnum.

„Allt special price!“

En leikskólamærin, sem nú vinnur á barnum, segir að ljóð kvöldsins hafi verið misjöfn. „Sum voru ögrandi,“ bætir hún við. „Eitt var um að nauðga ungbarni.“

A.rawlings gerir sig líklega til að hverfa af vettvangi og morguninn eftir fer hún af landi brott, en hún hefur verið á Íslandi í þrjá mánuði á styrk frá kanadískum stjórnvöldum. Enda er yfirskrift kvöldsins „Blame Canada“. En hún ætlar sér að snúa aftur næsta vor og vera allt sumarið, ganga Fimmvörðuhálsinn og um Þórsmörk, svona meðfram bókarskrifum. Og hún á til orð yfir Íslendinga:

„Þeir eru hráir, ástríðufullir og áfram um að segja sögur, fallegar og furðulegar sögur, sem gefa manni þrótt; þeir eru opnastir allra í heiminum og hér er besta augnsambandið.“

Hún segist ekki vilja fara „heim“ aftur og gerir táknrænar gæsalappir með fingrunum utan um heim. Svo arkar hún af stað tregafullum skrefum, horfir upp Ingólfsstrætið og tautar eflaust fyrir munni sér: „Fögur er hlíðin.“

pebl@mbl.is

Já, þetta var gott kvöld.

Hin hryllilega skattagleði

Lágmarksframfærsla sveitarfélaga eru 115 þúsund krónur á mánuði. Hún er veitt þeim sem ekki hafa rétt á atvinnuleysisbótum. Um 4600 íbúar Reykjavíkur þiggja framfærslu til að lifa af út mánuðinn og gætu ekki verið án.

Þessa framfærslu vill meirihlutinn í Reykjavík skerða, enda bara enn einn liðurinn í áætlun Hönnu Birnu borgarstjóra um að hækka ekki útsvar en skera allt annað niður í staðinn. Það má reyna að ímynda sér hvernig í ósköpunum hún ætlar að fara að því. Það loforð endist líkast til bara fram að kosningum enda sér það hver heilvita maður að reikningsdæmið gengur ekki upp. Þessu mótmælir fulltrúi vinstrigrænna í velferðarráði og leggur til að hækka útsvar svo unnt sé að standa vörð um grunnþjónustu.

Það finnst Gísla Frey Valdórssyni algerlega ótækt. Að Drífu Snædal skuli detta það í hug að útsvarsgreiðendur reiði ögn meira af hendi svo unnt verði að hækka svívirðilega lága lágmarksframfærslu til þeirra verst settu svo þeir komist betur af. Nei, Gísli vill heldur sjá fleirihundruð manns enda lóðbeint úti á götu en að hann sjálfur greiði aðeins hærra útsvar. Og honum finnst Hanna Birna eiga „mikið lof skilið fyrir þá ákvörðun“. Allt má nú lofa.

Tillögur Drífu má lesa hér og gagnrýni hennar á hugmyndir meirihlutans um skilyrðingu framfærslustyrks má finna hér. Og hvort ætli lesendum þyki nú róttækara, að bæta við sig aðeins meiri byrðum eða skera á lífæðar þeirra sem geta sér minnsta vörn veitt? Annars er varla orðum eyðandi í þetta þus hans Gísla, það kemur allt úr þeim enda sem síst skyldi taka mark á.

Breyttar neysluvenjur I

Ég hef komist að því að það er taktískt glappaskot að kaupa morgunkorn til þess eins að tryggja að mjólkin renni ekki út í ísskápnum, og að 93 krónur á mjólkurlítrann sé ásættanlegur fórnarkostnaður andspænis sexhundruðkróna kókópöffspakka sem er hæpið að ég nái að klára fyrir síðasta neysludag og leggst auk þess einsog mara á innvols mitt.

Það er til lítils að borða ef maður þarf að leggjast útaf emjandi á eftir. Kókópöffs er viðbjóður.

Borgaralega þenkjandi krati

Ögmundur er mikill hugsjónamaður og alltaf til í hugmyndafræðilegt debatt. En hann er meira en bara hugmyndafræðilega þenkjandi. Ögmundur er baráttumaður. Hann er tilbúinn að vera með læti ef með þarf og andstæðingar hans í stjórnmálum ættu ekki að láta góðlátlegu föðurímyndina villa sér sýn þegar á hólminn er komið – ekki frekar en að tanið og gelið geri Árna Pál Árnason að borgaralega þenkjandi krata.

# Gísli Freyr Valdórsson.

Gísli má fyrirgefa, en Árni Páll er einmitt nákvæmlega þetta: borgaralega þenkjandi krati. Eða dettur nokkrum einasta manni í hug að þessi smjörsleikti kratadindill sé kommúnisti? Það þarf svosem ekki mikið til að mati Gísla Freys. Eina sem þarf er að aðhyllast einhverslags lýðréttindi og þá er maður sjálfkjörinn kommúnisti í hans bók.

Blogg

Það er ekki vegna þess að ég hafi ekkert að segja sem ég blogga ekki. Ég blogga ekki vegna fyrirframhugmynda minna um hvað lesendum kann að þykja áhugavert.

Flest blogg eru meira eða minna eitthvert krepputuldur og strámannapandemóníum. Þetta blogg verður ekki þannig. Til hvers að öskra í hófi þarsem allir eru meira eða minna öskrandi? Þá vil ég heldur vera úti.

Ég blogga ekki um strípistaði vegna þess að ég nenni ekki að eiga orðastað við fífl sem loka augunum fyrir veruleika mansals. Skilaboð til þeirra: ef þið lærið að hegða ykkur innanum fólk munuð þið kannski dag einn verða svo heppnir að geta séð allsbera konu án þess að greiða kvalara hennar formúgu fjár fyrir. Kannski verður samband ykkar ástríkt og þið eignist börn. Hugsið um hvað getur orðið um börn í þessari viðbjóðslegu veröld. Opnið svo ekki kjaftinn aftur fyrren þið hafið hugsað málið.

Ég blogga heldur ekki um Sjálfstæðisflokkinn, af því það er ekki orðum eyðandi á Sjálfstæðisflokkinn. Ég þarf líklega ekki að útskýra hvers vegna ég blogga ekki um Framsóknarflokkinn.

Ég blogga ekki um eigin persónu vegna þess að það er fátt af henni að segja, að minnsta kosti það sem á annað borð kemur ykkur við. Fátt hefur breyst síðan síðast. Að vísu er bók væntanleg frá mér. Meira um það síðar. Annað er það ekki.

En mér líður vel mitt í allri þessari súrrandi geðveiki. Þið megið vita það.