Hin hryllilega skattagleði

Lágmarksframfærsla sveitarfélaga eru 115 þúsund krónur á mánuði. Hún er veitt þeim sem ekki hafa rétt á atvinnuleysisbótum. Um 4600 íbúar Reykjavíkur þiggja framfærslu til að lifa af út mánuðinn og gætu ekki verið án.

Þessa framfærslu vill meirihlutinn í Reykjavík skerða, enda bara enn einn liðurinn í áætlun Hönnu Birnu borgarstjóra um að hækka ekki útsvar en skera allt annað niður í staðinn. Það má reyna að ímynda sér hvernig í ósköpunum hún ætlar að fara að því. Það loforð endist líkast til bara fram að kosningum enda sér það hver heilvita maður að reikningsdæmið gengur ekki upp. Þessu mótmælir fulltrúi vinstrigrænna í velferðarráði og leggur til að hækka útsvar svo unnt sé að standa vörð um grunnþjónustu.

Það finnst Gísla Frey Valdórssyni algerlega ótækt. Að Drífu Snædal skuli detta það í hug að útsvarsgreiðendur reiði ögn meira af hendi svo unnt verði að hækka svívirðilega lága lágmarksframfærslu til þeirra verst settu svo þeir komist betur af. Nei, Gísli vill heldur sjá fleirihundruð manns enda lóðbeint úti á götu en að hann sjálfur greiði aðeins hærra útsvar. Og honum finnst Hanna Birna eiga „mikið lof skilið fyrir þá ákvörðun“. Allt má nú lofa.

Tillögur Drífu má lesa hér og gagnrýni hennar á hugmyndir meirihlutans um skilyrðingu framfærslustyrks má finna hér. Og hvort ætli lesendum þyki nú róttækara, að bæta við sig aðeins meiri byrðum eða skera á lífæðar þeirra sem geta sér minnsta vörn veitt? Annars er varla orðum eyðandi í þetta þus hans Gísla, það kemur allt úr þeim enda sem síst skyldi taka mark á.