Bergshús V

Fyrir tæpu ári fjallaði ég nokkuð um Bergshús á þessum síðum og vitnaði meðal annarra í Guðjón Friðriksson sem sagði að húsið hefði verið rifið (sjá hér). Fljótlega eftir það skrifaði einhver færslu um húsið á Wikipediu og vísaði hingað (sjá hér).

Athygli mín var vakin á málinu aftur í gær þegar einhver kom inná síðuna mína gegnum Wikipediu og ég athugaði hvort nokkru hefði verið bætt við síðan síðast. Þá rak ég augun í frétt um að rishæð Bergshúss skyldi flutt uppá Árbæjarsafn – einsog einhver hafði áður uppástungið við mig – árið 1989. Á myndinni með fréttinni sést að húsið var í niðurníðslu. Á Árbæjarsafni skyldi svo endurgera jarðhæðina í upprunalegri mynd og tylla risinu ofaná.

Þetta þóttu mér nokkuð athyglisverð tíðindi þarsem ég vissi fullvel að húsið er ekki á Árbæjarsafni, þótt Wikipediufærslan geri ráð fyrir að það hafi farið þangað. En ég fylltist agnarlítilli von og sendi fyrirspurn til Minjasafns Reykjavíkur – ef húsið gekk ekki sundur við flutningana þá væri það ef til vill einhversstaðar niðurkomið. En svarið sem ég fékk dró af öll tvímæli:

Sæll Arngrímur

Húsið var ekki flutt í heilu lagi hingað á Árbæjarsafn, heldur einungis þak þess eða ris, en þakið mun hafa verið það eina sem heillegt var af húsinu. Til stóð að byggja undir það eftirlíkingu af upprunalegu hæðinni, en aldrei varð af því. Mun þakhæðin hafa verið verr farin en ætlað var og því reyndist ekki unnt að endurreisa húsið í safninu..

Bestu kveðjur,

Drífa Kristín Þrastardóttir
Safnvörður, húsadeild
Minjasafni Reykjavíkur – Árbæjarsafni

Og því skrifa ég þessa færslu nú í von um að þau hjá Wikipediu reki augun í þetta og leiðrétti færsluna. Ég hefði samband sjálfur ef ritstjórar hefðu opinbera kontakta á síðunni en verandi alþýðuuppsláttarrit hefur það hingað til ekki verið stefnan. Ég hinsvegar breyti þessu ekki sjálfur af tveim ástæðum: vegna þess að í mig er vitnað, og samkvæmt reglum Wikipediu má ekki birta eigin athuganir, og vegna þess einfaldlega að ég nenni ekki að setja mig inní það.

En þá vitum við þó að það var reynt að bjarga húsinu. Það er syndsamlega mikill missir að því.

Eldri færslur um efnið:

Bergshús
Bergshús II
Bergshús III
Bergshús IV

Myndin eftir Árna Sæberg er ekki fengin með leyfi, sem er eingöngu vegna eigin leti.