Búferli

Þá er hið vægast sagt mikilvæga formsatriði komið á hreint að ég hef verið samþykktur inní norrænudeild Árósaháskóla á meistarastigi. Ferlið gekk nokkurnveginn þannig fyrir sig að ég gerði konuna sem hafði móttekið umsóknina mína að mínum eigin persónulega þjónustufulltrúa (sem maður á áreiðanlega ekki að gera) með því að senda öll gögn beint á hana og spyrja svo fyrir helgi hvenær svarið lægi fyrir.

Í morgun fékk ég bréf frá henni þarsem hún sagðist ekki vita það, en hinsvegar væru tvær umsóknir frá mér inni, önnur um skiptinám en hin um fullt meistaranám, svo hún spurði hvort ég vildi heldur. Skiptinámsumsóknin var gerð fyrir eigin mistök svo ég sagðist vilja fullt meistaranám. Fimm mínútum síðar hafði hún „spjallað við kollega sína“ og bauð mig velkominn í skólann og sendi mér tengil á húsnæðisumsóknina. Þetta er ódanskasta þjónusta sem ég hef hingað til fengið en prísa mig auðvitað sælan að hafa fengið staðfestinguna svona fljótt. Hálftíma síðar sendi ég æðsta yfirmanni mínum uppsagnarbréf.

Kollegíin sem umsóknin valdi sjálfkrafa, eins dreifð og þau eru, eru öll fullkomlega staðsett fyrir mínar þarfir. Nú bý ég að því að þekkja bæinn eftir síðasta sumar og vita nokkurnveginn hvar Breið- og Grafarholt Árósa eru. Ég vil búa í nágrenni við kaffihúsið mitt og Háskólann og annað kemur helst ekki til greina, einsog samgöngur eru annars góðar. Fyrsta metrósporið verður svo vígt að mig minnir að tveim árum liðnum og þar er komin enn ein samgöngubótin. Ég vil samt helst láta mér nægja hjólið sem ég ætla að kaupa.

Skyndilega finnst mér ég samt hafa svo lítinn tíma til stefnu og að mörgu er að hyggja. Sú tímaþröng er að vísu kærkomin einsog svo margar þær gjafir sem yfirgengileg vinna síðasta árs hefur fært mér. Jafnskjótt finnst mér ég hafa yfirstigið hið ómögulega, og að loksins séu hjólin farin að snúast mér í vil. Vonandi fæ ég að búa að þeirri tilfinningu áfram.

Af bankamálum

Í lok mánaðar held ég til Árósa til að taka fyrsta áfangann minn á meistarastigi og bíð núna ferðastyrks sem ekkert bólar á. Þess vegna hef ég þurft að eyða öllum peningum sem ég átti í húsaleiguna úti, þartil styrkurinn kemur í hús.

Svo ég hringdi í Byr áðan og bað um hógværan yfirdrátt. Þjónustufulltrúinn spurði mig þá fyrst hvort ég væri námsmaður, sem ég játti. Þá spurði hann mig hvort ég væri kominn með vinnu, sem ég játti, enda hef ég unnið á Borgarbókasafni í fjögur ár. Þá spurði hann mig hvar ég væri að vinna, sem kom honum andskotans ekkert við en ég sagði honum það samt. Þá sagði hann mér að þetta væri komið.

Nema þetta var ekkert komið, svo ég hringdi aftur seinna og spurði hvað málið væri. Þá bíður þetta afgreiðslu! Fyrir tæpum mánuði greiddi ég upp hálfrar milljón króna yfirdrátt í sama banka og finnst helvíti hart eftir að hafa alltaf staðið í skilum að vera skyndilega grillaður undir yfirheyrslu og umsóknin bíði samt samþykkis hjá bankanum.

Þá frétti ég það hjá vinnufélaga að hún hafi ekki mátt stofna bankareikning þarsem ökuskírteinið hennar var útrunnið, einsog það komi málinu einhvern fjandann við. Og ekki nóg með það, hún þurfti að framvísa vegabréfi. Það er ekkert annað en ólíðandi helvítis yfirgangur [leiðrétt í athugasemdum].

Að hvarfla aftur

Í umræðu um psýkósómatískt óþol mitt gagnvart Egilsstöðum (ég er ekki að grínast, ég fæ útbrot í fimm kílómetra radíus frá bænum og veit ekki af hverju) rifjaðist upp fyrir mér að í ágúst hef ég búið í Hafnarfirði í þrjú ár. Það er nokkuð sérstök tilfinning og ekki laus við stöku endurlit þegar það er við hæfi.

Þótt það muni breytast á næstu árum hef ég varið lengstum tíma mínum í háskólanámi í Hafnarfirði. Ég er orðinn eignamaður (á bíl) en það stendur allt til bóta. Ég hef aldrei haft hug á að eiga neitt meira en það sem ég kem fyrir í einni ferðatösku. Allt umfram það stendur mér fyrir þrifum og það er hjákátlegt að hafa unnið fjögur ár á bókasafni af hugsjón og eiga svo heilt bókasafn sjálfur sem ég þarf einhvern veginn að flytja þegar þar að kemur. Þegar það verður kvöð að flytja hefur maður gert einhverja skissu.

Fyrst og fremst er þriggja ára dvöl mín í Hafnarfirði táknræn í mínum huga fyrir öll þau sambönd sem ég hef myndað síðan ég fluttist hingað. Það er ekki götuhorn hérna í næsta nágrenni sem ég tengi ekki við einhvern atburð eða tilfinningu, veturinn 2008-2009 var í mínu lífi einsog svo margra annarra mesti umbrotatíminn og ég tengi óramargt hér bara við þann vetur, sem leið í senn hjá svo silalega og svo hratt. Tengingar við Vesturbæinn sem ég bjó í þaráður hafa einnig verið tíðar síðan ég flutti hingað, sem brúar bilið milli þess liðna og þess líðandi.

Af þessum sökum er margt í Hafnarfirðinum sem ég hef lært að þykja vænt um og jafnframt margt sem vekur upp hlýjar minningar. En þau eru líka einu áhrifin sem Hafnarfjörðurinn hefur á mig; allt það sem hér stendur í stað andspænis öllu hinu sem breyttist í mér á þessum tíma. Hafnarfjörður er ekki bær til að halda áfram í mínum huga, heldur bær til að hvarfla aftur.

Það er merkilegt með bæi hvernig þeir hafa þessi ólíku áhrif á mann. Það er ekki maður sjálfur og hvað maður finnur sem er aðalatriðið, heldur eru það áhrifin sem bærinn hefur á mann sem lifandi veru sem vekja upp viðeigandi tilfinningar. Svo eru til staðir sem maður getur ekki komið nærri, einsog Egilsstaðir. Árósar er akkúrat ekki borg til að líta mikið aftur í, þar finn ég fyrir stöðugri framþróun. Hér er ég í stöðugu endurliti. Reykjavík og svo Kaupmannahöfn standa báðar þarna á milli. Þær eru borgir múltítasksins. Kannski ekki síst þess vegna ákvað ég fyrir tæpu ári að fara héðan, hér er ekkert eftir nema líta aftur.

Í ár er jafnframt tilefni til af tveim ástæðum:

1) Ég er að fara til Danmerkur.
2) Það eru 10 ár í haust síðan ég tók það skref sem langflestir taka að hefja nám við framhaldsskóla, skref sem reyndist mér heilladrjúgt á svo marga vegu að sjálfsagt tjóir aldrei að reyna að telja upp öll þau atriði sem gerðu mig að þeim manni sem ég er í dag.

Þess vegna hef ég hugsað mér að reyna að líta aftur stöku sinnum í sumar og rifja upp markverð atriði sem flestum má hlæja að eftirá. Þannig ætti líka að fara um öll okkar verk. Ef það má ekki hlæja að þeim voru þau kannski aldrei þess virði.

Það er ástæða fyrir því að ég nefni ekki nostalgíu eða fortíðarþrá neinstaðar hér. Nostalgía er b-hugtak sem er jafnharðan afskrifað undir eins og það er sett fram og fortíðarþrá nær engan veginn utanum tilfinninguna, enda þrá líklega fáir það limbó að eiga að endurlifa eigin fortíð. Það er líka annað að endurlifa og segja frá. Ég lofa engu.

Mynd: Þrándur Arnþórsson.

Viðtal við Sonic Iceland

Í gærkvöldi hitti ég þýsku menningarblaðamennina Kai Müller og Marcel Krueger frá Sonic Iceland á Hressó þar sem við ræddum um íslenska bókmenntageirann (smellið á hlekkinn til að lesa meira og sjá gullfallega mynd af mér).

Settling in the beer garden, while the rain was lashing down on the canopy above our heads, we had a really interesting conversation with Arngrímur that covered various topics – from Icelandic grassroots poetry over to the impact the Sagas still have on current-day writing and rhyming, to how the independent poets and writers in Iceland perceive the fact that Iceland is guest of honour at the Frankfurt book fair next year.

Hvað íslenskan sagnaarf snertir (við ræddum þjóðsögur líka og almenna þjóðmenningu) þá er kannski rétt að taka fram að ég svaraði spurningunni um hvort ég teldi að þulur og þjóðsögur, Íslendingasögur og Eddukvæði hefðu áhrif á íslenskar nútímabókmenntir að mestu neitandi, að minnsta kosti væri það varla meðvitað nema hjá örfáum sem beinlínis gefa sig eftir því, helst þá Vilborgu Davíðs, og svo í komandi bók Emils Hjörvars og Fenrisúlfi Bjarna Klemenz. Þetta er ekki nógu skýrt í færslunni þeirra.

Viðtalið í heild sinni birtist síðar á vef Sonic Iceland, og þá má geta þess að þeir félagar eru að vonast til að það efni sem þeir safna saman hérna komi út á bók einn daginn.

Kúkulúkur og Gardaland

Á Ítalíu 1989 voru í sjónvarpinu skemmtiþættir sem ég gæti ekki munað hvað hétu til að leysa höfuð mitt. Þáttastjórnandinn var klæddur í safarígalla og eitthvert hundskvikindi af sokkabrúðu stýrði þáttunum með honum. Stundum var kona í stað mannsins, klædd sama safarígalla, og stundum voru þau tvö saman, en okkur fannst konan ekkert skemmtileg. Við bræður dáðum hinsvegar þennan hund þótt líklega muni hvorugur nú hvað hann hét.

Þættirnir voru hreinn og klár áróður sem miðuðu að því einu að börn sannfærðu foreldra sína um ágæti þess að sækja heim Gardaland, skemmtigarð við hið margrómaða Gardavatn (þar sem Kristján Jóhannsson bjó). Pabbi þoldi ekki þáttastjórnandann, sem í minningunni hefði að vísu allteins getað verið Bog Saget, og uppnefndi hann Kúkulúkur eftir sínu hárbeitta skopskyni. Eftir orðhlutafræði mætti greina fyrri liðinn sem orðið kúkur án karlkynsbeygingarendingarinnar -r, og seinni liðinn sem einskonar herðandi og jafnframt niðrandi aðskeyti. Kúkulúkur var semsé ekki hátt skrifaður.

En í hvert sinn sem Kúkulúkur og hans dýrðlega hundskvikindi birtust á skjánum hrópuðum við bræður af ákefð: Kúkulúkur og Peppito! (ég gef mér bara það nafn á hundinn) af því við vissum að pabbi myndi stynja af vandlætingu. Kúkulúkur var svosem ekkert hátt skrifaður hjá okkur bræðrum heldur en hundurinn gerði það allt þess virði. Hundurinn var hreint út sagt frábær, og vatnsrennibrautirnar sem hann af kapítalísku innsæi innprentaði okkur að væru merkilegri fyrirbæri en píramídarnir við Giza urðu okkur að áþreifanlegu markmiði í lífinu til að falast eftir.

Svo kom að lokum að foreldrar okkar gáfu eftir og við fórum öll til Gardalands. Þar tapaði ég skó í hendur hins illa Frankensteins og sárgrét megnið af tímanum. Drumbaferðin eftir vatnsbrautinni var hinsvegar nokkuð skemmtileg. En hvergi sáust Kúkulúkur eða Peppito neinstaðar nálægt. Það olli mér sárum vonbrigðum, en bróður mínum virtist sléttsama um það. Í draugalestinni hélt mamma fyrir augun á honum alla ferðina hinsvegar svo ég varð einn um að upplifa þann hrylling að sjá beinagrindur sveifla sér í veg fyrir lestina okkar. Ég minnist þess ekki að hafa orðið neitt hræddur.

Gardaland uppfyllti allar okkar væntingar um skemmtun sem venjulegir leikgarðar áttu ekki séns á, en á hinn bóginn saknaði ég ákaft nærveru þeirra Kúkulúks og hundsfyrirbærisins hans. Í dag átta ég mig á að ég vissi ekki einu sinni hvað maðurinn hét og man ekki lengur fyrir mitt litla líf hvað hundurinn hét, þótt Peppito sé sjálfsagt nálægt því. Og það sem meira er, ég átta mig á um leið og ég minnist þessa að ekkert af þessu skipti nokkru einasta máli. Þannig fer líklega um flestar manns bernskuminningar.

Viðbót: Alli kann að hafa fundið þáttinn:

Heimurinn þá og nú

Ég man eftir að mér hafi verið sagt frá því þegar ég var barn að öðruhvorumegin við 1980 hafi margmenni þust að Heklurótum til að verða vitni að eldgosi. Ég sá fyrir mér ungt háskólafólk í drapplitum lopapeysum og joggínggöllum lulla þetta á ryðbrúnu ópelunum sínum og fíötum til að vera innanum fimmtuga bartaða fréttamenn með hornspangargleraugu á köflóttum jakkafötum. Allir pollrólegir og prúðir, og allt heldur leiðinlegt og grátt (einsog allt var áður en ég fæddist, sama hversu skömmu áður, og ljósmyndir fannst mér staðfesta hversu grátt allt var þá).

Aldrei í lífinu gat ég ímyndað mér annan eins heimatúrisma einsog varð kringum gosið á Fimmvörðuhálsi, fólk vaðandi þetta á skyrtunni, drekkandi, takandi ljósmyndir. En sjálfsagt var þetta alveg eins við Heklugosið forðum. Að minnsta kosti get ég ekki ímyndað mér að Íslendingar hafi breyst neitt meira á síðustu 30 árum en þeir gerðu næstu 1000 ár á undan. En svona virkar hugur barnsins. Nú er þessi heimsmynd aðeins dofin minning. En þó gleðst ég alltaf inní mér þegar ég sé þætti einsog Stiklur Ómars Ragnarssonar. Þar í er hún varðveitt, sú hugmynd sem ég hafði um Ísland áður en ég varð til. Land gamallra karla, ryðgaðra bíla og ljótra fata.

Ég svolítið sakna þess Íslands, þótt það hafi kannski aldrei verið til einsog ég sá það fyrir mér.

LÍN og séreignasjóðirnir

Í gildi eru lög félagsmálaráðherra sem gilda að ég held fram í apríl á næsta ári, sem kveða á um að þeir sem eiga sparnað í séreignasjóðum geti tekið hann út gegn því að þeir greiði af honum fullan tekjuskatt í stað fjármagnstekjuskatts. Þetta eru kaup kaups og með þessu móti er bæði ætlunin að koma til móts við almenning og auka tekjur ríkissjóðs um eitthvert lítilræði.

LÍN framfylgir svo sínum reglum og þegar sparnaðurinn er talinn fram sem tekjur þá tekur Lánasjóðurinn auðvitað mið af því í sínum útreikningum. Fyrir vikið getur námsmaður lent í því að bæði greiða tekjuskatt af sparnaðinum sínum og skerða í leiðinni námslánin fari hann yfir tekjuviðmið LÍN. Það er auðvitað ekki meiri glóra í viðmiðum LÍN núna fremur en hingað til og þetta er nokkuð sem þarf alvarlega að skoða að taka fyrir.

Á hinn bóginn ættu námsmenn erlendis ekki að örvænta þar sem þeir ættu flestir ef ekki allir að falla langt undir tekjumiðun bæði LÍN og skattsins. Sjálfur held ég utan í haust ef allt fer að óskum og hver einasta króna er dýrmæt. Þá get ég tekið út sparnaðinn minn strax eftir áramót og greitt af honum skatt sem ég fæ að fullu endurgreiddan síðar þar sem sparnaðurinn minn, sem er ekki sérlega há upphæð, kemur til með að teljast til minna einustu tekna á Íslandi fyrir árið 2011. LÍN lætur þá sömuleiðis vera að klípa af láninu mínu þótt ég sé sá stórbokki að eiga sparnað.

Þetta er nokkuð sem allir ættu að hafa í huga ef þeir hyggja á nám erlendis.