Af bankamálum

Í lok mánaðar held ég til Árósa til að taka fyrsta áfangann minn á meistarastigi og bíð núna ferðastyrks sem ekkert bólar á. Þess vegna hef ég þurft að eyða öllum peningum sem ég átti í húsaleiguna úti, þartil styrkurinn kemur í hús.

Svo ég hringdi í Byr áðan og bað um hógværan yfirdrátt. Þjónustufulltrúinn spurði mig þá fyrst hvort ég væri námsmaður, sem ég játti. Þá spurði hann mig hvort ég væri kominn með vinnu, sem ég játti, enda hef ég unnið á Borgarbókasafni í fjögur ár. Þá spurði hann mig hvar ég væri að vinna, sem kom honum andskotans ekkert við en ég sagði honum það samt. Þá sagði hann mér að þetta væri komið.

Nema þetta var ekkert komið, svo ég hringdi aftur seinna og spurði hvað málið væri. Þá bíður þetta afgreiðslu! Fyrir tæpum mánuði greiddi ég upp hálfrar milljón króna yfirdrátt í sama banka og finnst helvíti hart eftir að hafa alltaf staðið í skilum að vera skyndilega grillaður undir yfirheyrslu og umsóknin bíði samt samþykkis hjá bankanum.

Þá frétti ég það hjá vinnufélaga að hún hafi ekki mátt stofna bankareikning þarsem ökuskírteinið hennar var útrunnið, einsog það komi málinu einhvern fjandann við. Og ekki nóg með það, hún þurfti að framvísa vegabréfi. Það er ekkert annað en ólíðandi helvítis yfirgangur [leiðrétt í athugasemdum].