Búferli

Þá er hið vægast sagt mikilvæga formsatriði komið á hreint að ég hef verið samþykktur inní norrænudeild Árósaháskóla á meistarastigi. Ferlið gekk nokkurnveginn þannig fyrir sig að ég gerði konuna sem hafði móttekið umsóknina mína að mínum eigin persónulega þjónustufulltrúa (sem maður á áreiðanlega ekki að gera) með því að senda öll gögn beint á hana og spyrja svo fyrir helgi hvenær svarið lægi fyrir.

Í morgun fékk ég bréf frá henni þarsem hún sagðist ekki vita það, en hinsvegar væru tvær umsóknir frá mér inni, önnur um skiptinám en hin um fullt meistaranám, svo hún spurði hvort ég vildi heldur. Skiptinámsumsóknin var gerð fyrir eigin mistök svo ég sagðist vilja fullt meistaranám. Fimm mínútum síðar hafði hún „spjallað við kollega sína“ og bauð mig velkominn í skólann og sendi mér tengil á húsnæðisumsóknina. Þetta er ódanskasta þjónusta sem ég hef hingað til fengið en prísa mig auðvitað sælan að hafa fengið staðfestinguna svona fljótt. Hálftíma síðar sendi ég æðsta yfirmanni mínum uppsagnarbréf.

Kollegíin sem umsóknin valdi sjálfkrafa, eins dreifð og þau eru, eru öll fullkomlega staðsett fyrir mínar þarfir. Nú bý ég að því að þekkja bæinn eftir síðasta sumar og vita nokkurnveginn hvar Breið- og Grafarholt Árósa eru. Ég vil búa í nágrenni við kaffihúsið mitt og Háskólann og annað kemur helst ekki til greina, einsog samgöngur eru annars góðar. Fyrsta metrósporið verður svo vígt að mig minnir að tveim árum liðnum og þar er komin enn ein samgöngubótin. Ég vil samt helst láta mér nægja hjólið sem ég ætla að kaupa.

Skyndilega finnst mér ég samt hafa svo lítinn tíma til stefnu og að mörgu er að hyggja. Sú tímaþröng er að vísu kærkomin einsog svo margar þær gjafir sem yfirgengileg vinna síðasta árs hefur fært mér. Jafnskjótt finnst mér ég hafa yfirstigið hið ómögulega, og að loksins séu hjólin farin að snúast mér í vil. Vonandi fæ ég að búa að þeirri tilfinningu áfram.