Ögn um málfar

Í Morgunblaðinu í dag birtist pistill eftir Guðmund Egil Árnason sem ber heitið Misskilningur í íslenskri menningu, sem er einmitt sérstakt áhugamál hjá mér. Að mörgu leyti er pistillinn ágætis áminning um þann tvískinnung sem felst í óhóflegri málvernd, einsog þeirri sem stunduð er af „íslenskum menningarstofnunum“, einsog hann kemst að orði. Þar nefnir hann sérstaklega Mannanafnanefnd og raunar menntakerfið í heild sinni, sem er kannski eilítið bratt hjá honum.

Tvennt hnaut ég sérstaklega um í pistlinum. Guðmundur Egill segir á einum stað:

Mjög fáir Íslendingar gera sér grein fyrir því að íslenska er hvað skilning varðar (for all cognitive purposes) jafnólík forn-íslensku og sænska. Sama stafróf var ekki notað og gjörsamlega allt annað hljóðkerfi. Ördæmi: Í íslensku voru tvö æ, sem voru löng sérhljóð í stað tvíhljóðans sem við notum í dag, tvö ö, sem að vísu voru önghljóð en hljómuðu eins og o annars vegar og danskt Ø hins vegar og svona mætti lengi telja án þess að lesendur skildu nokkuð. Né skildu lesendur nokkuð ef þeir læsu alvöru-forníslensku eða hlustuðu á forníslenska hljóðbók en ekki námsbækur skólanna. Þær gefa mjög blekkjandi mynd af fornri íslensku.

Ég hefði haldið að útgáfa fornrita hefði það einmitt að markmiði að færa þau nær nútímalesendum, ekki að gefa neina sérstaka mynd af forníslensku. Að sama skapi þykir mér hæpin ályktun að íslenska sé jafn ólík forníslensku og sænska. Það þýddi að í íslensku og sænsku hefðu sömu eða hliðstæðar hljóðbreytingar átt sér stað þegar staðreyndin er sú að í íslensku voru breytingarnar ekki nærri eins róttækar. En ég vil aðallega ræða þá fullyrðingu að venjulegur lesandi geti ekki skilið skrifaða forníslensku.

Sjálfum þykir mér ýmist of mikið eða of lítið gert úr þeim mun sem Guðmundur Egill talar um. Því er stundum haldið fram að Íslendingar geti lesið handritin, sem er satt upp að því marki að til eru Íslendingar sem geta það, enginn þó án þjálfunar svo ég viti. Þá er hinum öfgunum stundum haldið fram að tungumál handritanna sé það ólíkt nútímaíslensku að í raun sé það ekki sama tungumál. Það er hárrétt hjá Guðmundi Agli að að forníslenska er gjörólík nútímaíslensku að framburði og að stafsetningin var um margt ólík, en vandamálið er ekki alfarið bundið við málfar.

Ein helsta ástæða þess hversu torsótt það getur verið að lesa handritin er að þau eru illlæsileg sökum aldurs og meðferðar. Þá eru þau uppfull af torskildum skammstöfunum sem var beitt til að spara pláss á bókfellinu. Málfar og stafsetning verður fyrst helsti múrinn þegar handritið hefur verið gefið út stafrétt, en jafnvel það ætti ekki að vera neinum neinn óyfirstíganlegur múr þótt margt hafi breyst. Sjálfum þætti mér réttara að segja að munurinn á forníslensku og nútímaíslensku sé umtalsverður, en engan veginn eins afgerandi og Guðmundur gefur í skyn.

Þá segir hann strax í kjölfarið:

Þegar ný orð koma úr ensku eða mönnum dettur sjálfum eitthvert orð í hug þurfa þeir að bíða eftir næstu orðabók frá Merði Árnasyni til þess að hann geti sagt okkur hvort orðið sé nothæft eða ekki í blöðum landsins. Það er eins gott að maður stelist fyrir aftan hann í bíó þá og hvísli því að honum, ef maður vill fá leyfi til að nota það á opinberum vettvangi

Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt. Fólk hefur vissulega einhverja undarlega tröllatrú á orðabókum, en Íslensk orðabók er ekki kanóna einnar eða annarrar stofnunar, nema veri það ritstjórans sjálfs. Orðabækur eru ekki fræðirit heldur eru þær háðar duttlungum ritstjóra hverju sinni. Í íslenskudeildinni var gefið dæmi af ritstjóra Íslenskrar orðabókar sem fjarlægði orðið ‘valsari’ frá fyrri útgáfu en bætti inn ‘kr-ingur’ í staðinn. Þó að Mörður hafi viljað hafa ‘sjitt’ í orðabókinni sinni þýðir það ekki að það sé skyndilega orðin íslenska, og það þótt hann hefði sleppt því þýddi það ekki heldur að það væri það ekki. Ekki frekar en valsari hætti að vera íslenska þegar það var fjarlægt úr orðabókinni.

Tungumálið er það sem fólk talar og það er það lengsta sem nokkur kanóna nær. Mörður ræður ekki hvernig fólk talar, það gerir fólk sjálft, enda þótt til sé einstaka fasisti sem heldur öðru fram. Þess vegna býðst Guðmundi Agli að beita hvaða slangri sem hann vill án þess það sé neitt óíslenskara en hvað annað. Enda ef fólk sletti ekki þyrfti enga Merði til að skemma daginn fyrir Eiði Guðnasyni og hans nótum. Útgefnum skoðunum Marðar á því hvað sé íslenska þarf á hinn bóginn ekki að taka neitt alvarlegar en manni sjálfum sýnist.