Bechdelprófið

Hinn stórmerki vinur minn og hellenophil Ásgeir Berg benti mér um daginn á Bechdelstaðalinn fyrir ásættanlegt kynjahlutfall í kvikmyndum, sem Alison Bechdel setti fram í teiknimyndasögu sinni Dykes to Watch Out For. Staðallinn sem prófa má eftir felst í þrem einföldum liðum. Kvikmynd skal hafa:

1. Tvær (nafngreindar) kvenpersónur
2. sem tala saman
3. um eitthvað annað en karlmenn.

Það eru ótrúlega margar kvikmyndir sem standast ekki þetta einfalda próf, ekki síður þær sem gefa sig á einhvern stórfurðulegan hátt út fyrir að vera feminískar (Sex & the City). Hér má sjá statistík yfir þær myndir sem hafa verið skoðaðar með tilliti til Bechdelstaðalsins.

Þetta einfalda próf segir ótrúlega margt um þau (lítt) duldu viðhorf til kvenna sem finnast innan dægurmenningarinnar rétt einsog samfélagsgerðarinnar sjálfrar, og eins einfalt og það er eru niðurstöðurnar eftir sem áður, ég veit ekki hvort ég ætti að segja fyrirsjáanlega, sláandi. Þetta er einfaldlega nokkuð sem margir leiða hugann ekki sérstaklega að.

Bechdelstaðallinn gildir auðvitað ekki bara um kvikmyndir heldur bókmenntir líka, og ég held að í einfaldleika sínum gæti það orðið áhugaverð stúdía að beita fyrir sig Bechdelstaðlinum við lestur bóka. Það er það sem koma átti á framfæri.