Matreiðsla fyrir fólk

Matreiðslublogg eru óhemjuleiðinleg. Það er einsog að horfa á matseðil með götótta vasa, eintóm fífl að monta sig af þeirri snilld sem þeir geta framreitt á augabragði en þú munt aldrei fá að smakka. Svo veit ekki nokkur heilbrigður maður hvað kúrbítur er. Hvað í fjandanum er capers? Hver djöfullinn er focaccia? Hver er munurinn á basil og steinselju? Hverjum er ekki drullusama.

Þess vegna ætla ég að opna matreiðsluhorn fyrir þá sem vilja bara éta og er skítsama hvað hlutirnir heita. Fyrsta uppskriftin er að awesome samloku.

Þú steikir þrjú egg í brauði (skilgreining: franskbrauð steikt með eggi í gati í miðjunni á snarkandi heitri pönnu uppúr ólífuolíu eða smjöri), léttkrydduð með pipar og salti á báðum hliðum. Svo steikirðu þrjár beikonsneiðar á hvert brauð. Þá seturðu rauðkál á hverja sneið og beikon ofan á það. Svo raðarðu sneiðunum saman í awesome samloku.