Meira um Hejredalkollegíið

Það fyrsta sem vakti athygli mína er að kollegíið er víggirt. Römm læst hlið á alla útganga og gaddavír eftir öllum girðingum. Til að komast í íbúðina þarf því þrjá lykla. Í síðustu færslu minntist ég líka á að nágrannarnir þora ekki að fara út á kvöldin.

Að vísu eru flestar fréttir sem berast til Íslands frá Árósum úr hverfinu mínu. Bílsprenging fyrir fimm eða sex vikum og bankarán í fyrra og sjálfsagt fleira til. En ég skil ekki að krakkarnir á kollegíinu óttist húðlitinn á öðrum nágrönnum sínum. Þarna er fólk margvíslega tónað (tanað?) en ég hef ekki nokkra ástæðu til að halda að þeim sé ekki drullusama um einhverja háskólanema, hvort sem þeir hanga í virkinu sínu eða hætti sér á kebabbúlluna.

Allt er þetta jafnmikið inni og úti. Það þarf ekki meira hugrekki til að fara til arabíska rakarans á horninu en það þarf kænsku til að brjótast inn í rottuholurnar sem hýsa stúdenta. Það eru alvarlegri hlutir til að óttast, einsog að verða fyrir strætó. Eða að verða milliliður í skotárás mótórhjólafábjána á basarinn. Það ætti þó ekki að hindra neinn í að rölta út á kvöldin enda eiga voðaverkin sér engu síður stað um hábjartan dag. Það er svipað og að óttast að fá eldingu í hausinn; ef það gerist þá gerist það svo skyndilega að við því er ekkert að gera. Á hinn bóginn er Danmörk hálfgert Boltaland við hliðina á flestum öðrum löndum svo fyrir mér er allur ótti innistæðulaus.

Í öðrum fréttum sá ég Orlando Bloom í Kaupmannahöfn í gær, eða það gæti ég svarið. Að minnsta kosti myndi ég ekki halda að neinn myndi gera sér far um að líkjast honum svona mikið. Svo í dag sá ég einn frægan danskan leikara sem ég man ekki hver er í svipinn, svo ekki var það eftirminnilegt. Og núna rétt áðan fannst mér ég sjá Jesper Christensen. Sjálfsagt er ég að ímynda mér þetta allt saman. En það er þó tilbreyting frá Hilmi Snæ á Næsta bar eða einhverjum has been þingmönnum á vappi um miðbæinn.

Að Lottuvegi 1

Í augnablikinu er ég staddur á Café Undermasken í Árósum. Þvílík beljandi rigning hefur verið í dag að dyflinnarregnhlífin gaf undan og því flýði ég inn. Ég er líka netlaus svo ég kem til með að verða nokkuð hér næstu daga.

Innskot:
Ég er núna á Ris Ras. Einhver strákur hellti bjór yfir tölvuna mína á Undermasken og hún brást við með því að drepa á sér. Eftir að ég kom henni í gang fór hún að eipa og blikka á mig skjánum. Hún drepur á sér við og við, en ég er að vonast til að þurfa ekki með hana í viðgerð. Þá þarf að senda hana til Kaupmannahafnar, og það gæti tekið tvær vikur. En ég er með símann hjá stráknum ef þetta verður kostnaðarsamt.
Innskoti lýkur.

Allt fór samkvæmt áætlun til að byrja með í gær. Ég hitti Steinunni á Panorama bar í Leifsstöð og Sissekellingin tók á móti mér á Kastrup. Þaðan fórum við á Höfuðbana þar sem við settumst á tröppurnar og fengum okkur nokkra. David og Christian tóku svo á móti mér á Banagarði nyrðri og þaðan lá leið okkar uppí Brabrand.

Lítill austurlenskur strákur deildi vagni með okkur og bauðst til að leiða okkur að kollegíinu. Hann skoðaði myndina á möppunni sem ég fékk og opnaði hugarkortið, svo gekk hann hratt á undan með sífelldum bendingum og sagði „kom her nu“ og „den vej her“ og „lige herover“ í svona 5 mínútur meðan hann leitaði að húsinu. Svona svipað og í öllum Hollywoodmyndum þar sem hvíti aðkomumaðurinn má sín lítils gagnvart speki 8 ára drengs í óbyggðum Ástralíu eða Kenýa. Sjálfsprottin staðalmynd.

Íbúðin sjálf var, og er, viðbjóðsleg. Mold og gras á gólfinu, saur í klósettinu og þar sem lásinn á eina glugganum, sem er meira einsog rennidyr út í garð, er brotinn hefur fyrri leigjandi sett kústskaft í staðinn. Það voru göt á veggnum og för á gólfinu eftir bókahillur sem höfðu verið fjarlægðar. Risastór en vitagagnslaus skúffueining liggur við fótalag rúmsins. Rúmið sjálft er þó nýlegt en án sængurfata, hvað þá kodda eða sængur, svo það var ekki alveg glatað að sofa á því í nótt mitt í öllum viðbjóðinum, undir teppi sem ég var nógu forsjáll til að hafa með mér.

Aðrir leigjendur sem deila með mér eldhúsinu eru brjálaðir, og hræddir. Þetta eru allt krakkar um tvítugt. Þeim hefur skilist að Brabrand sé hættulegasta hverfi Árósa og ekki eru íbúðirnar til að létta þeim áhyggjurnar. Sturtan í einni íbúðinni virkar ekki. Klósettið virkar ekki í annarri. Frágangur er hryllilegur, og það eru engar búðir í göngufæri frá kollegíinu. Mér finnst þetta nú ekki svona svart, en þetta er engu að síður ógeðslegasta vistarvera sem ég hef búið í.

Ég myndi skrifa gáfulegar um þetta allt saman en ég óttast að tölvan drepi á sér, svo ég læt hér við sitja í bili.